2145 - Rafpeningar

Já, það er sannarlega vorveður hjá okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu núna. Það er bæði hlýtt og bjart. Snjólaust með öllu og ástæðulaust fyrir okkur að kvarta. En fjarri fer því að allir geti sagt það sama. Sumsstaðar er mun meiri snjór og kaldara en vant er. Hæfileg svartsýni er bara holl og það er alls ekki víst að þetta haldist svona.

Foreldrar mínir og okkar systkinanna endurnýttu jólapappír, meðan við krakkarnir horfðum hugfangin á upptrekkta dótið í Kaupfélaginu og jólatrénu var komið fyrir á móts við verslunina Reykjafoss. Hinum megin við Breiðumörkina þó.

Af hverju í ósköpunum er ég alltaf með þessar fáránlegu jólaminningar? Sennilega er það útaf því að vorið virðist vera að koma. Skil þó ekki samhengið þar á milli.

Það sem nú heitir forsendubrestur var einu sinni kallað ýmislegt annað. Ég man vel eftir misgengishópnum sáluga og Sigtúnshópnum líka. Forsendubrestshópurinn er ekkert verri fyrir það. Það er bara siðferðið í því að taka einn hóp fram fyrir ýmsa aðra sem má setja spurningarmerki við. Prósentutölur og upphæðir skipta litlu máli hvað það snertir, en alla umræðu er hægt að jarða með tölum og endalausu kjaftæði. Í því kerfi sem við búum í er það hagvöxturinn sem öllu máli skiptir. Sumir er samt andvígir því að láta hann og nýfrjálshyggjuna ráða of miklu. Svo eru líka ýmsir sem hafa skömm á þessu öllu saman.

Rafpeningar eru merkileg tilraun. Peningar eru aðferð til að útdeila verðmætum í þjóðfélögum. Ekkert meira og ekkert minna. Það er í sjálfu sér ekkert merkilegri aðferð en hver önnur. Þeir sem við þetta fást hafa þó reynt að sveipa það sem mestri dulúð. Mikilvægast í þessari aðferð er magn peninganna. Ekki hvað þeir heita, hver útdeilir þeim eða hvernig það er gert. Ákvörðunarvaldið um magnið er yfirleitt hjá ríkisstjórnum og aðalhlutverk þeirra er að sjálfsögðu að takmarka það sem mest. Með rafpeningunum er reynt að hrifsa það ákvörðunarvald úr höndum þeirra. Reynt er að láta það stjórnast af einhverri guðlegri eða stærðfræðilegri (vísindalegri) forsjón og sveipa það hæfilegri dulúð. Þetta hefur tekist að miklu leyti t.d. með Bitcoin. Gæti hugsanlega tekist með Auroracoin líka. Veit það ekki.

Allir peningar eru í rauninni ímyndun. Verðmæti gulls var það auðvitað líka á sínum tíma. Magn þeirra fer að miklu leyti eftir því hvernig þeim er útdeilt. Á Íslandi gerðist það að magn peninga stórjókst. Að mestu leyti var það vegna korta- og rafvæðingar. Ríkisstjórnin (Seðlabankinn, sem einu sinni var bara skúffa í Landsbankanum.) skipti sér ekkert af þessu. Bæði var það vegna getuleysis, ímyndaðs „frelsis“ og rangrar gengisskráningar. Afleiðingar þessa urðu hrikalegar.

Þetta er í afar stuttu máli skilningur minn á peningamálum. Auðvitað er ekkert víst að hann sé réttur, en hann nægir mér. Auðvitað er ég hvorki ríkisstjórn eða vísindalegri í hugsun en aðrir. Innan þessa kerfis er vel hægt að láta sér líða vel, ef gunnþörfum um fæði og húsaskjól er fullnægt. Hvort og hvernig það er gert má auðvitað endalaust deila um.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir (eða bæjarstjórnin í Árborg) verði lagðir í eyði.

IMG 0138Þyrla.


mbl.is Mikilvægt að eyða lagalegu tómarúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband