2134 - Engimýri

Einhversstaðar (væntanlega á netinu) rakst ég á eftirfarandi auglýsingu:

Á Engimýri eru 8 tveggja manna herbergi. 
6 herbergi eru með uppábúnum rúmum, vask, sjónvarpi, fataskáp og skrifborði. 
2 herbergi eru að auki með sturtu og salerni.

Eru rúmin á Engimýri virkilega uppábúin? Í mínu ungdæmi þýddi það að vera í sparifötunum sínum og eins fínn/fín og nokkur tök voru á. Var eingöngu notað um fólk. Kannski breytist bara íslenskan. Hvað veit ég? Miðlínuna í auglýsingunni hefði ég samt haft einhvernvegin svona: 6 herbergi eru með rúmum og öllum sængurfötum, vaski, sjónvarpi, fataskápi og skrifborði. Semsagt 3 villur í örstuttum og einföldum texta. Hefði kannski gengið í ómerkilegu bloggi, en í vandaðri auglýsingu finnst mér þetta heldur mikið. Í gamla daga klæddi fólk sig meira að segja uppá þegar það fór að láta taka mynd af sér. Engum held ég að dytti það í hug núna. Sumir eru líka alltaf í sparifötunum sínum.

Íslenskt mál er mér alltaf hugleikið. Þó augljóslega sé ekki til siðs lengur að nota orð eins og að „mævængja“, að „stígstappa“ og að „akneytast“ er merking þeirra mér afar ljós því mamma notaði þau talsvert. Einnig notaði hún oft orð eins og „blómsturpottur“ og „kvittering“ þó til séu á íslensku styttri og þægilegri orð sem þýða nákvæmlega það sama.

Athugasemdirnar við síðasta blogg mitt eru lengri en bloggið sjálft. Það finnst mér ókostur. Eiginlega ætti að reyna að hafa athugasemdir sem stystar og alls ekki að nota „copy+paste“. Eða allavega sem minnst. (Ég geri það víst sjálfur.) Gaman er samt út af fyrir sig að fá athugasemdir og ef þær eru kurteislega orðaðar ætti að vera sjálfsagt að svara þeim.

Minnir endilega að ég hafi séð á fésbókinni um daginn einhvern vera að hafa orð á því hve íslenska krónan væri lítil orðin miðað við þá dönsku. Svar við þessu var að viðkomandi hafi verið í Færeyjum nýlega og notað jöfnum höndum færeyska og danska seðla, svo færeyska krónan væri ekki svo lítil og hvernig þeir hefðu farið að þessu. Danir vildu ekki að sögn sjá færeysku krónurnar.

Datt undireins í hug skýring á þessu. Danski Seðlabankinn hefur ugglaust gefið þessa seðla út og látið sér í léttu rúmi liggja hvaða áletrun væri á þeim. Auðvitað vita ekki allir Danir af þessu og búast jafnvel við að um falsaða peninga sé að ræða. Man eftir að þegar ég var að byrja að safna frímerkjum hélt ég að stimpilmerki væru frímerki. Stimpilmerki voru gjarnan á víxlum sem var algengasta lánsformið þátildags. Samanber útvarpsleikritið fræga sem hét „Víxlar með afföllum“.

Sko mig. Mér hefur tekist að skrifa heilt blogg (Hmmmm) án þess að minnast á stjórnmál. Enda eru þau orðið svo vitlaus að ekki er orðum á þau eyðandi. Samt gengur ríkisstjórnin með viðræðuslitum við ESB freklega á bak orða sinna.

Auk þess ætlaði ég að minnast á Ásgautsstaði, en man bara ekkert hvað ég hafði í huga.

IMG 0060Háskólinn í Reykjavík.


Bloggfærslur 10. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband