2124 - En ég á engan kjallara

Öll þessi umræða um „Skagfirska efnahagssvæðið“ er svolítið fyndin, og grínið flest um Gunnar Braga Sveinsson, ef maður hefur smekk fyrir pólitískum áróðri. Annað er þetta auðvitað ekki. Framsóknarflokkurinn gerir að vísu tómar vitleysur og utanríkisráðherrann ekki síst. Það hafa samt fyrr verið misheppnaðir ráðherrar en í núverandi ríkisstjórn. Ætla samt ekki að vekja meiri athygli á því hvað ég er misheppnaður bloggari og hætti því per samstundis. Allir bloggarar sem ekki eru kærðir, eða a.m.k. reynt að stinga upp í, eru stórlega misheppnaðir.

Marínó G. Njálsson bloggar um vísitölur http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/ Því sem hann segir er ég að mestu sammála. Á vissan hátt kemur það umræðunni um verðtrygginguna heilmikið við. Með því að fimbulfamba um vexti, verðbætur, og allskyns vísitölur er hægðarleikur að rugla fólk í ríminu. Marínó lætur þó ekki blekkjast og hann er einmitt áberandi skýr í því sem hann skrifar. Ég ráðlegg semsagt öllum að lesa þessa grein.

Auðvitað á maður ekki að vera að gera grín að barnabörnunum sínum. Internetið gleymir aldrei neinu og þetta getur sem hægast komið í andlitið á þeim þegar verst gegnir eftir svo og svo langan tíma. Get samt ekki stillt mig um að segja smásögu af Tinnu: Hún kom hingað í heimsókn um daginn. Foreldrar hennar skildu hana eftir og fóru eitthvað annað. Tinna greyið (4 ára) var grútsyfjuð og vildi bara fara að sofa. Það vildum við afi hennar og amma helst ekki svo ég fór með hana í skoðunarferð niður í geymslu í kjallaranum. Þar fann hún tvo gamla badmintonspaða. Ég sagði henni að hún mætti eiga þá. Svar hennar var alveg gullvægt: „En ég á engan kjallara.“

Setti vísukorn eftir sjálfan mig á Boðnarmjöð og vegginn minn á fésbók í dag og það var svona:

Sátu tveir að tafli þar
titrandi af bræði.
Simmi karlinn sáttur var
ef svarað gat í næði.

Fyrsta ljóðlínan er eiginlega hálfstolin (alþekkt klámvísa sem byrjar: Sátu tvö að tafli þar.) Og sumir segja að sv sé gnýstuðull.

Ég er alveg sammála Hallgrími Helgasyni um að hagstæðast sé að róa sig útaf þessu ESB-máli. Við endum þar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Evrópa er skárri kostur en Kína eða Bandaríkin. Okkur liggur svosem ekkert á. Best að bíða bara ef það er hægt. Kannski verður sífellt flóknara að lifa með þennan EES-samning yfir hausamótunum, en hann nægir okkur alveg í bili.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðamálið verði tekið á dagskrá á næsta bæjarstjórnarfundi (eða er það kannski borgarstjórnarfundur?) í Árborg. Eyþór Arnalds er að hætta, en hann vildi einmitt koma þessu máli á hreint.

IMG 5929Brú yfir Kringlumýrarbraut.


Bloggfærslur 20. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband