2115 - Verðtrygging eða ekki verðtrygging

Ég get ekki annað en hugsað svolítið um ESB. Auðvitað var það ógnarleg vitleysa hjá vinstri grænum að samþykkja að sækja um inngöngu ef þeir voru algerlega á móti því. Með tímanum verður það langstærsta málið sem þarf að semja um við hver stjórnarskipti hvort sækja skuli um inngöngu eða ekki. Á margan hátt hlýtur öfgavinstrifólk og það sem telja má til öfgahægri að vera sammála um andstöðuna við inngöngu. (Þó ekki væri nema vegna þjóðrembu) Þó slík andstaða sé í meirihluta núna og hafi verið um nokkurt sinn, er ekki víst að svo verði alltaf. Kannski verður innganga í ESB framsókn að þakka að lokum. Um miðjumoð verður þá að ræða en það er það eina sem getur bjargað okkur. Þó utanríkisráðherra og kannski forsætisráherra líka vilji helst að þetta mál hverfi og hætti að vera til, þá er ólíklegt að þeim verði að þeirri ósk sinni.

Verðtrygging eða ekki verðtrygging, virkjun eða ekki virkjun, Greenvichtími eða ekki Greenvichtími. Allt þetta og margt fleira má hugsanlega semja um eða tala sig niður á einhverja lausn á sem bæði andstæðingar og fylgjendur geta sætt sig við. Varðandi ESB-aðild er ekki neinu slíku til að dreifa. Annað hvort göngum við í Evrópusambandið eða ekki. Þetta mál er því vel fallið (eins og hermálið á sínum tíma) til að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar. Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild góð hugmynd. Verst er ef margir lýsa því yfir fyrirfram að þeir muni ekki sætta sig við niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu. Útfærslu hennar mætti hugsanlega semja um.

Ég fæ ekki betur séð en sú ríkisstjórn sem nú situr stefni að auknum ójöfnuði í þjóðfélaginu. Það er ekki þar með sagt að þeir sem hana styðja vilji ekki gera vel við okkar minnstu bræður. Það er bara þannig að hvernig sem horft er á málin er veruleg hætta á því að ójöfnuður aukist sé þeirra stefnu fylgt. Sú stefna á sér samt verulegar málsbætur því næsta ríkisstjórn á undan, sem kennd var við vinstri, jók hann ekki heldur og vinstri stjórnir ganga oft hættulega langt í ríkisafskiftum allskonar. Auðvitað glímdi sú ríkisstjórn sem var við mikinn vanda sem orsakaðist af bankahruninu 2008, en hefði samt átt að gera betur.

Núverandi ríkisstjórn reynir með ýmsu móti að auka fjárfestingu í landinu og auka hraðann á „hjólum atvinnulífsins“. Takist henni ekki fljótlega að ná marktækum árangri í því efni á hún sér engar málsbætur og ætti að fara frá.

Um daginn varð ég alveg steinhissa. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir bauð mér bloggvináttu. Sennilega hefur það nú verið alveg óvart hjá henni. En hvað um það ég ákvað að samþykkja það tilboð og fá að auki tilkynningar um innleggin hennar og sennilega gera það fleiri því mig minnir að hún sé með yfir 3500 fésbókarvini, sem þýðir að hún hefur sennilega enga yfirsýn yfir hverjir það eru. Ég fékk svo fljólega tilvísun í grein eftir hana sem hún kallar „Kvalarar“ og hefur svo birst á Knúz.is og margir mælt með.

Ekki neita ég því að þessi grein er áhrifamikil og vel skrifuð. Get samt ekki gert að því (ég er svo mikið karlrembusvín) að mér finnst hún öðrum þræði vera hugsuð sem réttlæting á því (að sumra áliti a.m.k.) vanhugsaða verki sem hún vann ásamt með annarri konu með því að kæra ráðningu JBH til Háskóla Íslands. Það mál kom aftur uppá yfirborðið einmitt um daginn og sýnir ljóslega vanmátt núverandi háskólarektors. Grein Hildar er líka hugsanlega svolítið ýkt og færð í stílinn þó ég viti auðvitað ekkert um það.

Skilst að fljótlega verði haldinn fundur um Ásgautsstaðamálið, svo ég ætla að reyna að stilla mig um að hallmæla Sýslumanninum á Selfossi og bæjarstjórn Árborgar. Þeir sem vilja fræðast meira um þetta mál geta gert það hér: http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/day/2013/12/10/ eða með samtölum við málsaðila. Fjölmiðlar hafa engan áhuga á þessu máli og er það á vissan hátt skaði því margt í sambandi við það snertir einmitt samskipti þéttbýlis við strjálbýli og embættismanna við almenning.

Þetta mál er að afar litlu leyti sambærilegt við Vatnsendamálið svokallaða. Greiðslur þær sem Kópavogsbær innti af hendi til Þorsteins Hjaltested voru þó greiddar þinglýstum eiganda jarðarinnar. Ekki var heldur um eignarnám að ræða. Þar að auki eru peningaupphæðir allar miklu lægri í Ásgautsstaðamálinu.

IMG 5880Snjór á sólarströnd? 


Bloggfærslur 1. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband