1039 - Blogg vs. fésbók einu sinni enn

Auðvitað tek ég misjafnlega mikið mark á bloggurum. Fjölmiðlum líka. Gallinn við fjölmiðlana er sá að þar eru svo margir sem láta ljós sitt skína að maður veit ekki nærri alltaf við hvern er að eiga. Þar að auki á það bæði við um bloggara og aðra fjölmiðla að misjafnlega mikið mark er á þeim takandi eftir því um hvað þeir fjalla.

Bloggarinn Marínó G. Njálsson fer oftast vel með tölur. Hann heldur því fram að allir aðilar fjórflokksins hafi tapað umtalsverðu fylgi í síðustu kosningum. Þar er ég honum sammála.

Bloggið mitt var ekki á Blogg-gáttinni áðan en er komið þangað núna. Internetið hagaði sér líka eitthvað undarlega í morgun en er orðið betra. Eitthvað bilaði víst hjá Snerpu á Ísafirði segir Mogginn og ekki lýgur hann.

Fésbókarskrif eru mestan part stjórnlaust skvaldur. Við nánari athugun kemur oft í ljós að betra hefði verið að orða hlutina öðruvísi. Eða jafnvel að hafa aðra skoðun.

Vetfang og vettvangur er ekki það sama. Mér fannst þulur í útvarpinu leggja mikla áherslu á framburðinn í dag þegar hann sagði að atvinnulausum á einhverjum stað hefði fjölgað svo og svo mikið í einu(m) vettvangi. Þarna hefði hann átt að tala um vetfang.


Bloggfærslur 4. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband