1065 - ESB og svefn

Las einhversstaðar að því lengri sem svefn væri því meiri líkur væru á að hann innihéldi svonefndan gæðasvefn. Fór ekki að sofa fyrr en um eittleytið í fyrrakvöld. Glaðvaknaði svo og fann að svefninn hafði verið ágætur. Nú mundi ég vera endurnærður og tilbúinn til að takast á við eril dagsins. Sólin var komin upp og veður bjart og fagurt. Vonbrigði mín voru mikil þegar ég leit á vekjaraklukkuskömmina. Hún var þrjú. 

Öðru hvoru vakna ég um miðja nótt og get ekki sofnað strax aftur. Þá finnst mér gott að fá mér kaffibolla og leika í nokkrum bréfskákum. Það er allsekki víst að þetta mundi hjálpa öðrum til að sofna aftur en þetta hefur virkað ágætlega á mig.

Undarlegheit Evrópu-umræðunnar eru mikil. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi henta okkur Íslendingum ágætlega að ganga í ESB. Auðvitað skiptir miklu máli hver verður niðurstaðan í þeim umræðum sem nú eru að fara af stað. En miðað við það sem ég hef lært um Evrópusambandið á undanförnum áratugum er líklegt að sú niðurstaða verði okkur hagstæð. Slíkt er samt alls ekki víst og ekkert athugavert við að bíða þeirrar niðurstöðu.

Einkennilegt er hjá nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp núna og berjast fyrir því að viðræðum verði hætt. Varla er hægt að álíta annað en þetta sé tilraun til að auka sundrungina í ríkisstjórninni. Samt er alls ekki líklegt að tilraunin takist eitthvað betur nú en síðast.

Andstæðingar ESB-aðildar hafa ansi hátt um þessar mundir. Þeim finnst líka eflaust að Evrópusinnar séu háværir. Ekki er rætt um málið á málefnalegan hátt heldur er eins og umræðan sé keppni í því að forðast slíkt. Þó augljóst sé að andstæðingar aðildar séu fleiri en stuðningsmenn um þessar mndir er lítið að marka það. Ekkert er komið í ljós um líklegar niðurstöður samningaviðræðna og allsekki er búið að ákveða hvenær sú þjóðaratkvæðagreiðsla verði sem skera mun úr um aðild.


Bloggfærslur 30. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband