735 - Um fjölmiðla og fleira - Ekkert um Icesave

Nú er ég búinn að gúgla það sem hefði auðvitað (vitaskuld) átt að gúgla í gær. Íslenska vitafélagið er með heimasíðuna vitafelagid.com Þar má fræðast um sögu vita við Íslands strendur. Áhugavert efni.

Endurflutningur þátta truflar mig stundum. Þegar ég er í bíl kveiki ég oft á útvarpi. Um daginn hlustaði ég á þátt þar sem byrjað var á því að lýsa yfir að nú væri loksins kominn mánudagur. Veðrinu var síðan lýst með mörgum fögrum orðum. Líklega var þetta á útvarpi Sögu. Seinna sama dag datt ég inn í þátt, sem ég held að hafi verið á rás 2, þar sem verið var að lýsa tölvuleikjum og fleiru þess háttar. Þar var margstagast á því að nú væri loksins kominn föstudagur og þessvegna væri þessi þáttur í loftinu vegna þess að hann væri alltaf á föstudögum.

Samkvæmt mínum útreikningum var laugardagur þegar þetta var. Það fékk ég síðan staðfest að væri rétt. Auðvitað getur verið ástæða til að endurflytja þætti. Jafnvel allgamla og jafnvel hvað eftir annað. Þeir sem slíkum þáttum stjórna ættu samt að hafa vit á að forðast hluti sem þessa. Nóg ætti að vera um að tala þó ekki sé staglast á atriðum sem einungis geta verið til leiðinda í endurflutningi.

Var að enda við að lesa bókina „Blóðberg" eftir Ævar Örn Jósepsson. Þessi bók, sem er meira en 400 blaðsíðna löng, var gefin út árið 2005 en ég hafði ekki lesið hana fyrr. Sagan gerist næstum öll við Kárahnjúka og er á flestan hátt ágætis krimmi. Fléttan sem slík eða beinagrind sögunnar er ágæt og persónusköpunin nokkuð góð. Engir áberandi gallar eru á plottinu en úrvinnslan er ruglingsleg og sagan alltof löng. Mörgum útúrdúrunum hefði verið nær að sleppa en að vaða elginn endalaust. Ekki er mikinn fróðleik að finna í sögunni og náttúrverndarpælingarnar eru ósköp marklausar. Sem afþreying er bókin þó tvímælalaust í betri kantinum og ástæðulaust að hætta þó erfitt sé stundum að sjá meiningu höfundarins.

Í sjónvarpinu á laugardaginn var því haldið fram að Kaldármelar væru í Borgarfirði. Þessu er ég fráleitt sammála. Líklegast er að fréttasemjarinn hafi bara verið svona illa að sér í landafræði.

„Ósköp deyr af fólkinu síðan útvarpið kom", sagði kerlingin forðum. Skelfing kemur mönnum illa saman um einföldustu staðreyndir eftir að fjölmiðlum (og bloggurum) fjölgaði svona mikið.

 

Bloggfærslur 6. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband