757- DoctorE bannaður - Sveiattan

Alveg er ég steinhissa á þessu uppnámi útaf jarðskjálftaspánni. Jú, ég heyrði svosem sagt frá þessu og það var einkennilegt hve fjölmiðlar virtust taka þetta alvarlega. Undarlegt var líka að spákonan skyldi koma fram undir nafni. 

Auðvitað tók ég samt ekki hið minnsta mark á þessu frekar en flestir aðrir og er þessvegna hissa á látunum. Svo virðist sem einhverjir hafi beinlínis trúað þessu. Eru Íslendingar virkilega svona auðtrúa? Mér finnst það skelfilegt en verð víst að sætta mig við það. Ef það er að auki satt sem haldið hefur verið fram að sjáandinn sé með þessu að auglýsa „jarðskjálftaheld sumarhús" er þetta orðið enn verra.

Útyfir allan þjófabálk tekur þó að búið sé að loka Moggabloggi DoctorE. Sætti mig ekki við annað en opnað verði á hann aftur. Að vísu las ég bloggið hans ekki reglulega en þar var margt gott að finna og hann lagði oft margt áhugavert til málanna þó hann væri auðvitað einstrengingslegur og orðljótur. Hann virðist þó geta sent inn athugasemdir ennþá eins og Arnar Guðmundsson sem lokað var á um daginn en hve lengi verður það og hversu mikinn áhuga hefur hann á því? Þessu vil ég gjarnan fylgjast með. Lokanir þeirra Moggabloggsmanna eru að verða hættulegar tjáningarfrelsinu. Næst loka þeir sennilega á mig af því ég hallmæli þeim.

Mér skilst að frumvarp hafi verið lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til næsta vor samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þessi tillaga er víst runnin sé undan rifjum Samfylkingarfólks og engin furða þó bloggarar finni henni allt til foráttu. Það er samt greinilega hugmynd frumvarpsflytjanda að auðveldara verði að fá Alþingi til að fallast á þessa hugmynd ef stjórnlagaþingið verður aðeins ráðgefandi. Hvers vegna ættu Alþingismenn að framselja vald sitt einhverjum aðila sem þeir vita ekkert um? Ef stjórnlagaþingið kemst á laggirnar og nær góðri samstöðu um breytingar á stjórnarskránni sé ég alls ekki að Alþingi geti komist hjá að samþykkja þær tillögur.

Það er auðvelt að gagnrýna viðstöðulaust og vissulega er núverandi ríkisstjórn ekki yfir gagnrýni hafin. Gallinn er samt að önnur ríkisstjórn mun taka við fari þessi frá. Hafi menn sannfæringu fyrir því að til bóta yrði að skipta um ríkisstjórn á ekki að hika við að vinna að falli þessarar. Ekki þýðir að gefa sér að einhver lakari tæki við því allir möguleikar eru í raun opnir.

Vel er mögulegt að annað ríkisstjórnarmynstur væri betra. Samkomulag í þessari stjórn er ekki eins gott og vera þyrfti. Sumum finnst hún gera ósköp lítið en öðrum alltof mikið. Þarna er vandratað meðalhófið. Alþingiskosningar forðast hún þó greinilega. Stjórnarandstæðingar vilja kosningar. Vafamál er að þær mundu breyta miklu stjórnarandstöðunni í hag. Samt er ekki líklegt að núverandi ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið.

 

Bloggfærslur 29. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband