755- Bloggið bæði hressir og kætir

Ég blogga yfirleitt á hverjum degi. Ekki stendur á því. Þetta hef ég vanið mig á og er minn stíll. Yfirleitt blogga ég ekkert um sjálfan mig enda frá litlu að segja. Ýmislegt slæðist þó með svona í forbifarten og ég veit ekki betur en sumt af mínum ættingjum og venslafólki neyðist til að lesa þetta blogg. Bagalegt getur verið og kjánalegt að vita ekki mest beisik þings um sína nánustu ættingja. Bjarni þurrkaði allt út af sínu Moggabloggi um daginn. Áslaug bloggar að minnsta kosti öðru hvoru á 123.is/asben og ég hérna. Og svo stendur fésbókin auðvitað fyrir sínu, en þangað vil ég helst ekki fara.

Ég legg svolítinn metnað í að skrifa um allt mögulegt. Þeir sem leggja það í vana sinn að lesa bloggið mitt vita aldrei á hverju þeir eiga von. Stundum eru það minningar eða hugleiðingar um málefni dagsins. Stundum eitthvað allt annað. Satt að segja er ég orðinn pínulítið leiður á bankahruns-skrifunum. Þetta eru óttalegir heimsendaspádómar. Því ekki að gleðjast yfir því að vera til? Er til meiri hamingja? Ekki dygði að vera grátandi bæði í svefni og vöku ef maður ætlaði að taka alla heimsins óhamingju inn á sig. Gott ef kæruleysið er ekki bara betra. Því segi ég: Etið, drekkið og verið kát. Kannski verður enginn morgundagur.

Misheyrnir og mismæli geta verið skemmtileg. Um daginn heyrði ég farið með kvæði eða þulu í útvarpinu. Mér heyrðist endilega vera sagt: „Hundurinn ber mig hálfa leið í heimana nýja." Samt hlýtur það að vera vitleysa. Svo sagði Tryggvi Þór Herbertsson í þingræðu um daginn: „Þarna er greinilega verið að kasta augunum í rykið á fólki." Þá hló þingheimur en eftirmál urðu engin enda sárasaklaust að mismæla sig á þennan hátt. Höskuldur Þórhallsson sagði líka eftirminnilega í þingræðu að nauðsynlegt væri að taka einhver mál almennilegum vettlingatökum. Svona eru bara beinar útsendingar.

Og nokkrar myndir:

IMG 3671Frá Grænavatni.

IMG 3682Úr fjörunni við Herdísarvík.

IMG 3700Hvað er þetta eiginlega?

IMG 3704Tóft með Herdísarvík í baksýn.


Bloggfærslur 27. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband