731 - Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave er skynsamleg

Fyrst af öllu langar mig að rifja upp atburðina sumarið 2004 eins og þeir koma mér fyrir sjónir.

Fjölmiðlafrumvarp sem hægt var að túlka þannig að það beindist einkum gegn fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var samþykkt á Alþingi eftir talsverðar breytingar. Andstaða við frumvarpið var samt veruleg meðal þjóðarinnar. Forseti landsins Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta lögin og vísaði þeim til þjóðarinnar.

Eins og ég skil stjórnarskrána hafði hann fulla heimild til þess og að því gerðu áttu lögin að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Þáverandi ríkisstjórn tókst samt að koma því til leiðar, með því að afturkalla lögin, að ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslu og þannig gat hún haldið áfram sinni útrásarstefnu og komist hjá þeirri hneisu að vera ef til vill gerð afturreka með fjölmiðlafrumvarpið.

Það er svo til marks um það hve pólitíkin er skrítin tík að nú er synjun Ólafs af sumum talin hafa orsakað bankahrunið síðastliðið haust.

Í síðustu kosningum kaus ég Borgarahreyfinguna en styð eins og er núverandi ríkisstjórn þó fulltrúar mínir á Alþingi geri það ekki. Ríkisstjórnin hefur þó alls ekki gengið nógu langt í því að leita réttlætis og fá örgustu útrásarvíkingana og þá sem sannanlega hafa brotið lög dæmda til sanngjarnrar hegningar og upptöku eigna.

Ég er á móti því að Icesave-samningurinn verði samþykktur í sinni núverandi mynd. Auðvitað má leiða að því líkur að það verði ekki til góðs að fella ríkisábyrgðarfrumvarpið. Sú áhætta er þó ekki mikil. Þeir aðilar sem um þetta véla fyrir hönd Breta og Hollendinga hljóta að vilja leysa málið á friðsamlegan hátt. Í samninginn vantar ýmislegt og einkum marktækt öryggisákvæði. Eins og samningurinn er núna er áhættan öll okkar ef illa fer.

Afstaða ríkisstjórnarinnar mun þó ráða miklu í þessu sambandi. Ef til vill tekst henni að koma því til leiðar, með því að hóta afsögn ella, að nægilega margir af þingmönnum stjórnarflokkanna greiði ríkisábyrgð atkvæði sitt.

Takist ríkisstjórninni að fá frumvarpið um ríkisábyrgðina á Icesave-samningnum samþykkt getur vel orðið um svipaða atburðarás að ræða og varð sumarið 2004.

Þegar er komin fram á Netinu síða þar sem fólk getur skráð sig til áskorunar á forsetann um að undirrita ekki ríkisábyrgðina á Icesave. (kjosa.is) Fari svo að samþykkt verði á Alþingi að ríkið ábyrgist núverandi samningsdrög um Icesave kann vel að vera að ég skrifi mig á þennan lista. Fari síðan svo að Ólafur Ragnar forseti neiti undirskrift og ef ríkisstjórnin reynir síðan að hundsa á svipaðan hátt og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stjórnarskrárákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu get ég varla stutt hana lengur.

 

Bloggfærslur 2. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband