730 - Flokkapólitík, kúlulán og Guðni Ágústsson

Í sem allra stystu máli lítur flokkapólitíkin svona út frá mínu sjónarmiði:

Framsóknarflokkur - Við höfum kastað öllum okkar syndum bak við okkur.
Sjálfstæðisflokkur - Jú, við erum sekir. En samfylkingin sleppur ansi billega.
Samfylking - Fjúkk. Þar sluppum við naumlega. Allt sjálfstæðismönnum að kenna.
Vinstri grænir - Völdin eru sæt og ýmsu fórnandi fyrir þau.
Borgarahreyfingin - Nú erum við búin að finna klósettin og getum farið að gera eitthvað annað.

Hvernig lendir fólk í Kúluflokknum? Nú hefur DV sett þau Kristján Arason og Þorgerði Katrínu í þann eðla flokk. Eru ekki allir útrásarvíkingarnir örugglega í Kúluflokknum? Hefur þetta ekki eitthvað með kúlulán að gera? Ég skil þetta ekki almennilega.

Ein af þeim bókum sem ég fékk á Bókasafni Kópavogs um daginn var bókin „Guðni - af lífi og sál." Þessi bók er eftir Sigmund Erni Rúnarsson og kom út árið 2007. Fjallar um Guðna Ágústsson að sjálfsögðu.

Á einni af allra fyrstu síðum bókarinnar kemur eftirfarandi setning eftir skáldlegan inngang höfundar sem eðlilega gerist heima hjá Guðna: „Hjónakornin eru að leggja yfir Ölfusána í enn eitt skiptið." Síðan er ferðalaginu og öllu sem því tengist lýst með afar skáldlegum hætti og ekki alveg einfalt að finna út hvert ferðinni er heitið. Nokkru seinna kemur samt í ljós að ferðin liggur um Kambana og er heitið til Reykjavíkur.

Þar með ofbauð mér svo staðkunnátta höfundar að ég hætti að lesa og er ekki viss um að ég taki til við bókina aftur.

 

Bloggfærslur 1. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband