710- Reynum að hrista af okkur Icesave-óhugnaðinn

Auðvitað er Icesave samningurinn mál málanna í dag. Hugsanlegt er að ríkisstjórnin telji andstöðu við hann jafngilda vantrausti. Sjáum hvað setur. Hvernig væri að sækja um greiðsluaðlögun hjá Gordoni Brúna? Annars er ekki grín gerandi að þessum ósköpum. Brjánn talar samt um Hagkaupssloppinn hennar Björgúlfu Þóru í Cannes eins og góðri tískulöggu sæmir. Betra að hugsa um eitthvað þessháttar en Icesave.

Einu sinni var ég með mikla dellu fyrir John Steinbeck og las allt sem ég kom höndum yfir eftir hann. Fyndnast er í „Þrúgum Reiðinnar" þegar konan var að þvo uppúr klósettinu. Í East of Eden var setningin: „He wooed, wedded, bedded and impregnated her". Og ekki meira um það. Þarna var löng saga sögð í fáum orðum. Eitthvað las ég eftir hann á dönsku. Meðal annars bókina: „Rutebil paa afveje". Ægisgata minnir mig að hafi verið kölluð Dagdriverbanden á dönsku.

Bókin sem ég er að lesa núna áður en ég fer að sofa heitir því fráhrindandi nafni: Ágrip af sögu traktorsins á Úkraínsku. Ágæt skáldsaga reyndar um innflytjendamál og þess háttar í Bretlandi.

Samkvæmt fréttum er Sjóræningjaflokkurinn sænski (styður Torrent-vefsetur) kominn með fulltrúa á Evrópuþingið. Svei mér þá.

Sagt er að Jón biskup Arason hafi ort þetta um sjálfan sig.

Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur
víða trúi ég hann svamli
sá gamli.
Við Dani var hann djarfur og hraustur
hrakti hann þá á flæðarflaustur
með brauki og bramli.

Dapurleg voru samt örlög hans. Varla er hægt að fara að Skálholti án þess að skoða minnismerkið um hann. Orðin sem hann sagði síðast áður en hann var hálshöggvinn eru flestum kunn: „Veit ég það Sveinki."

Svo eru það fáeinar myndir:

IMG 2875Lúpínuakur í Kópavoginum.

IMG 2881Fjörusteinn í kvöldsólinni.

IMG 2891Þessi fer víst ekki lengra.

IMG 2902Furutré.

IMG 2920Friðsæld í dag í Heiðmörkinni.


Bloggfærslur 9. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband