709- Af hverju ber ég ábyrgð á þessum fjára?

Að eiga banka er nokkurs virði. Gefa má út innistæðulausa tékka villt og galið út um allar jarðir. Að minnsta kosti ef þess er gætt að múta stjórnvöldum nægilega mikið til að þau láti allt reka á reiðanum.

Af hverju er ríkið eiginlega að taka þessar Icesave skuldir á sig? Ekki veit ég það en held að búið hafi verið að lofa samningum og hinn kosturinn hafi verið að láta bankana og allt klabbið fara lóðbeint á hausinn og hætta þessu streði. Það væri uppgjöf.

Með því að taka á sig ábyrgð á því eftirliti sem hefði átt að vera og láta allt líta út fyrir að vera sem eðlilegast má kannski vinna traust umheimsins á ný. Þannig hljóta núverandi stjórnvöld að hugsa.

Það væri hægt að sleppa því að borga og reyna að hengja sig á einhverja vafasama lagakróka. Gallinn er bara sá að í samskiptum þjóða gildir hnefarétturinn þegar í harðbakkann slær. Sá sterkasti vinnur.

Með því að kjósa yfir okkur vanhæf stjórnvöld tókum við öll ábyrgð á vitleysunni sem viðgekkst. Líka þeir sem kusu á móti stjórnvöldum. Kosningarétturinn kostar.

Auðvitað er hægt að yfirgefa bara skerið eins og margir hafa gert og fleiri munu líklega gera.

Núverandi stjórnvöld reyna að milda höggið með því að velta vandanum (eða hluta hans að minnsta kosti) á undan sér í sjö ár. Allur er ávinningurinn af þessu óljós og eini vinningurinn sem er í boði í núverandi þjóðarhappdrætti (eins og vel er hægt að kalla þetta allt saman) er að eðlilegt ástand skapist í landinu á sem stystum tíma.

Kannski verður boðað til nýrrar búsáhaldabyltingar fljótlega. Ekki tek ég þátt í henni. Mér finnst bara vera í boði að una við núverandi stjórn (þó slæm sé á margan hátt) eða fá yfir sig aftur samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Eða algera upplausn.

 
 

Bloggfærslur 8. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband