704- Jón Valur Jensson, Walter Scott, Ivanhoe, Sigurður Þór Guðjónsson og fleiri

Heimsókn Dalai Lama er mjög í fréttum nú. Fróðlegt er að fylgjast með bloggskrifum um þau mál og trúarbragðaþrætum sem af þeim spretta. Sigurður Þór Guðjónsson gerir að umtalsefni umfjöllum Jóns Vals Jenssonar um karlinn. Athugasemdir við færslur þeirra Sigurðar og Jóns eru skemmtilegar þó erfitt sé að sjá hvenær rétt sé að hætta athugasemdalestri. 

Jón Valur Jensson hefur staðreyndir oftast á hreinu. Einkum þó staðreyndir sem styðja hans málflutning. Aðrar staðreyndir eru minna virði.  Ég hef áður látið þess getið í bloggi að ég telji Evrópusinnum til framdráttar að Jón Valur Jensson skrifi og tali sem allra mest um Evrópumál. Öfgamenn af hans sauðahúsi fæla menn frá andstöðu við aðild.

Ein af fyrstu alvörubókunum sem ég las í bernsku var Ívar Hlújárn eftir Sir Walter Scott. Hún var að sjálfsögðu á íslensku og mynd sem var nánast hálf blaðsíða á hverri einustu síðu. Þetta hefur áreiðanlega verið einhver úrdráttur úr hinu mikla og fræga verki Scotts og ég minnist þess ekki að hafa séð þessa bók síðar á lífsleiðinni.

Saga þessi og helstu persónur hennar standa mér ljóslifandi fyrir hugskotsstjónum enn í dag. Fyrst var það nú hann Vambi hirðfífl sem sagði ævinlega „Pax vobiscum" þegar hann lauk máli sínu þó hann væri ekki alveg viss um hvað það þýddi. Einnig vísaði hann rangt til vegar manninum sem síðar kom í ljós að var sjálfur Ríkharður ljónshjarta og svarti riddarinn sigursæli.

Svo má auðvitað nefna Sjóðrík og Ívar son hans, gyðinginn ágjarna og Rebekku dóttur hans, ásamt annarri kvenhetju sem ég man ekki nafnið á og ýmsir fleiri komu við sögu.

Áhrifamiklar burtreiðar fóru fram þar sem svarti riddarinn dularfulli vann frækinn sigur. Í lokin var svo mikill bardagi sem lauk með því að kastali Sjóðríks brann.

Ég man ennþá eftir mörgum myndunum í þessari bók og held að í henni sé líka frásögn af Hróa Hetti (Robin Hood), stóra Jóni og sýslumanninum í Nottingham. Margt fleira úr þessari ágætu sögu mundi eflaust rifjast upp fyrir mér ef ég nennti að gúgla hana.

Því nefni ég þetta að í Greppaminni sem ég er að hamast við að lesa um þessar mundir svona um leið og Úkraínsku traktorssöguna er grein á ensku sem heitir „Outlaws in medieval England and Iceland" eftir Anthony Faulkes. Þar gerir höfundur samanburð á enskum útlögum eins og Hróa Hetti og svo íslenskum eins og Gretti sterka, Gísla Súrssyni og Herði Grímkelssyni.

Ekki er hægt að segja að frásagnir þessar séu líkar en ljóst er að höfundur hefur lesið Grettlu, Gísla sögu Súrssonar og Harðar sögu og Hólmverja. Allir kannast við Gretti og Gísla en úr Harðar sögu og Hólmverja er mér langminnisstæðust frásögnin af sundi Helgu jarlsdóttur konu Harðar með syni sína tvo til lands úr hólmanum í Hvalfirði.

Einnig þekkir höfundur greinarinnar vel til sagnanna um Robin Hood sem vel getur hafa verið uppi á dögum Ríkharðar ljónshjarta (Sturlungaöld??) hafi hann verið uppi á annað borð.

Það hryggir mig að tölvumenn RUV skuli ekki geta lært á tækin sín. Held samt að margir vilji fylgjast með fréttaútsendingum RUV á Netinu.

 

Bloggfærslur 3. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband