727- Um bókasöfn og fleira

Í mínum augum eru þeir sem efni hafa á að kaupa sér þær bækur sem þá langar að lesa útrásarvíkingar og ekkert annað. 

Illa væri ég staddur ef bókasöfn tíðkuðust ekki. Núorðið má finna margt á Netinu en ekki allt. Bækur hafa vissa sérstöðu. Að geta fengið eins margar bækur að láni og hugurinn girnist án þess að borga nokkuð að ráði fyrir það er mér á við mörg gullklósett.

Höfundarrétthafar hafa jafnan horn í síðu bókasafna. Auðvitað er verið að ræna þá greiðslum ef horft er á málið á sama hátt og vaninn er í fréttum. Nýjir miðlar eru síður aðgengilegir á bókasöfnum en samt eru þeir í boði að ég held. Hefð er komin á bækurnar og þó oft sé erfitt að fá þær allra nýjustu er alltaf eitthvað að finna ef áhuginn er nægur.

Fór í dag á bókasöfnin (Kópavogs- og Borgar-) og spurði meðal annars hvort skírteinin mín væru að renna út. Ég er nefnilega að verða 67 ára og þá skilst mér að bókasafnsþjónusta (og eitthvað fleira) verði ókeypis. Auðvitað eru þau að renna út en mér tókst þó að fá nokkrar bækur á öðrum staðnum. Verð síðan að bíða fram undir miðjan september til að fá þessa þjónustu ókeypis. Það er að segja ef miðað er við fæðingardag frekar en fæðingarár.

Gaman er að fylgjast með bréfaskiptum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við Guðmund Andra Thorsson og þar áður við Karl Th. Birgisson ritstjóra Herðubreiðar. Þetta má finna á kaffstofunni á pressunni.is. Hannes er þrasari af Guðs náð og ágætlega að sér um margt. Ekki eins sérvitur og sumir aðrir þrasarar (Hmm - er ég að tala um sjálfan mig) og þess vegna oft áheyrilegur.

Hann er marktækur þó hólmsteinn sé.

Voðalega eru allir alvarlegir hérna. Má ekki gera grín að einhverju? Það er einn af mínum mestu bloggaraókostum hvað ég er alltaf alvarlegur. Samt er það augljóst þegar að er gáð að lífið er bara til að skemmta sér yfir því. Annar getur tilgangurinn ekki verið. Eftir að helvíti hætti að vera til er þýðingarlaust að bíða eftir því að allt fari til fjandans. Það er næstum eins vitlaust og verið getur að taka hlutina alvarlega.

Nú er ég búinn að blogga svo lengi að ég er orðinn vanur lyklaborðinu og get farið að láta allt flakka. Ég gæti reynt að semja smásögur eins og Jens Guð. Samt vil ég ekki hafa þær eins. Meira svona eins og eitthvað allt annað.


Bloggfærslur 26. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband