703 - Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm

Ég hef aðra sýn á íslenskar bókmenntir en flestir aðrir held ég. Í mínum augum eru Torfhildur Hólm, Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) og Ólafur Jóhann Sigurðsson með merkustu rithöfundum á Íslandi síðustu aldirnar. Jú jú, Guðmundur Kamban, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson og Þórbergur Þórðarson voru vissulega góðir höfundar en stóðu þeim fyrrnefndu ekkert endilega framar miðað við þann tíma sem þeir skrifuðu sín bestu verk á. Jón Thoroddsem var líka ágætur höfundur en í raun eru Piltur og stúlka og Maður og kona dönsk verk.

Bókin Greppaminni er mín aðalfjársjóðskista um þessar mundir. Ein grein er þar um Torfhildi Hólm. Hún er eftir Dagnýju Kristjánsdóttur bókmenntafræðing. Þetta er stórfróðleg grein og í henni kemur glögglega fram að Torfhildur var á margan hátt langt á undan sinni samtíð og ruddi mjög brautina fyrir eftirkomendur.

Fyrir allmörgum árum las ég sögu Torfhildar um Brynjólf biskup Sveinsson í Skálholti. Brynjólfur var faðir Ragnheiðar þeirrar sem eignaðist barn í lausaleik með Daða Halldórssyni sem frægt er. Þetta er fyrsta sögulega skáldsagan á íslensku og Torfhildur var fyrst íslenskra rithöfunda til að lifa alfarið á skáldskap sínum. Í sögunni um Brynjólf Sveinsson fylgir hún raunveruleikanum eins vel og henni er unnt en hikar ekki við að bæta inn í söguna ýmsu sem henni finnst sennilegt. Gerir Brynjólf einfaldlega að mennskum og breyskum manni.

Eftir að hafa lesið bókina um Brynjólf biskup var ég fróðari um sautjándu öldina en margir aðrir. Einhverju sinni tók ég á Netinu eins konar krossapróf í Íslandssögu og fékk þar háa einkunn fyrir kunnáttu mína í sögu Íslands á sautjándu öld. Þá var ég nýbúinn að lesa söguna um Bryjólf biskup og það hjálpaði mér mjög.

Það sem Dagný skrifar um Torfhildi Hólm og bókina um Brynjólf biskup er ágætt. Einkum fannst mér fengur að hugleiðingum hennar um hjúskaparmál Brynjólfs en þar skrifaði Torfhildur einum of mikið í kringum hlutina.

Skilningur bókmenntafræðingsins á meiningu Torfhildar með sögunni er líka athyglisverður þó ekki verði farið út í hann hér. Í sem allra stystu máli túlkar hún söguna sem árás á feðraveldið og má það vissulega til sanns vegar færa að minnsta kosti að einhverju leyti.


Bloggfærslur 2. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband