719 - Á hverfanda hveli

Okkur bloggurum hættir til að sýna málum sem tengjast bankahruninu fullmikla léttúð. Dæmið um manninn á Álftanesinu sýnir að þetta er dauðans alvara. Íslenskt þjóðfélag er breytt eftir bankahrunið. Bankar njóta ekki trausts. Stjórnvöld njóta ekki trausts. Stjórnmálaflokkar njóta ekki trausts. Fjölmiðlar njóta ekki trausts. Í stuttu máli sagt þá er traust orðið að sjaldgæfum munaðarvarningi hér á landi. 

Sjálfur fjármálaráðherrann og formaður Vinstri grænna nýtur ekki einu sinni trausts meðal sinna eigin þingmanna. En því miður, alþingismenn njóta ekki trausts frekar en aðrir. Þegar fólk treystir ekki lengur sínum nágrönnum og sinni fjölskyldu þá er stutt í byltinguna. Og hún étur börnin sín. Þeir sem ofaná fljóta eru einkum þeir sem afskiptalausastir eru.

Ég er hræddur um að ástandið hér á landi eigi eftir að versna enn áður en það fer að batna. Dómharka og ábyrgðarleysi vex, stjórnmálastarfsemi er í lamasessi, Lög og regla eru á undanhaldi og margt á fallanda fæti. Grunnstoðir samfélagsins halda þó enn.

Látum ekki etja okkur út í algjört stjórnleysi.

Var að enda við að lesa grein Guðbjörns Guðbjörnssonar sem hann birtir á bloggi sínu í dag (17. Júní) og kallar: Er þjóðin samdauna spillingu, valdhroka, óbilgirni, valdníðslu, siðleysi, kúgun , klíkuveldi og ættdrægni? Þetta er góð grein. Verulega góð og ég hvet alla til að lesa hana.

 

Bloggfærslur 18. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband