717 - Ýmislegt og myndir

Vil helst ekki ræða um Icesave. Það er svo leiðinlegt mál. Las þó eftir ábendingu Egils Helgasonar Reykjavíkurbréf Ólafs Stephensen á Moggablogginu og fannst það nokkuð sannfærandi. Ólafur er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að viðurkenna ábyrgð Íslendinga á þessu. Skil vel þá sem líklega munu samþykkja frumvarp um þetta að lokum á Alþingi. Finnst þó vanta meiri upplýsingar um málið allt og samningsferlið. Samninginn sjálfan á að sjálfsögðu að sýna alþingismönnum.

Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri Landsbankans talaði um Icesave á sínum tíma sem tæra viðskiptasnilld. Ómar Ragnarsson ræðir um það á sínu bloggi. Einnig um hve bankamenn hafi verið ánægðir með að lána Landsvirkjun til Kárahnjúkavirkjunar því gróði þeirra yrði því meiri sem verr gengi með virkjunina. Það var vegna ríkisábyrgðarinnar.

Lán Sigurjóns í nóvember síðastliðnum er nú mjög umtalað. Eftir því að dæma sem sagt er um það mál finnst mér líklegt að nákvæmlega það sem Sigurjón gerði með aðstoð Sigurðar G. Guðjónssonar fyrrum forstjóra Stöðvar 2 sé ef til vill ekki bannað með lögum. Löggjafann hafi semsagt skort hugmyndaflug til að banna það sérstaklega. Siðlegt er það þó alls ekki.

Ég held enn að Valtýr Sigurðsson muni segja af sér embætti ríkissaksóknara. Að öðrum kosti mun Eva Joly ekki aðstoða lengur við rannsókn bankahrunsins og það sem meira er pólitískar afleiðingar slíks munu verða miklar.

Árið 1994 fórst ferjan Estonia á Eystrasaltinu. Með henni fórust meira en 800 manns. Ég man að þegar ég heyrði fyrst frá þessu sagt í útvarpinu trúði ég ekki að talan sem nefnd var gæti verið rétt. Ég trúði heldur ekki eigin eyrum þegar ég heyrði fyrst sagt frá eldgosinu í Vestmannaeyjum í útvarpinu og skildi bókstaflega ekki hvað verið var að tala um.

Talað er um að Íslendingar eigi að ferðast um sitt eigið land í kreppunni. Margt er skynsamlegt í því. Til dæmis yfirgefa þeir peningar sem eytt er ekki landið strax. En dýrt er að ferðast um landið og ekki þarf alltaf að fara í langferðir til að sjá eitthvað. Hér fyrir neðan eru nokkar myndir (fleiri seinna) sem ég tók á Álftanesinu á sunnudaginn var.

 
IMG 2980IMG 2986IMG 2993IMG 2994IMG 2995IMG 3007IMG 3016IMG 3018

Bloggfærslur 16. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband