714 - Icesave einu sinni enn

Varðandi Icesafe-málið er ég næstum því að snúast. Kannski væri best að fella þetta bara og sjá til hvað menn geta gert okkur. Er hægt að hrekkja okkur meira en orðið er? Evrópubandalag hvað?

Ég er svosem fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið en ekki hvað sem það kostar. Í mínum huga eru þessi mál aðskilin og ef einhverjir vilja tengja þau saman þá þeir um það. Einhverjum bráðliggur á að komast í ESB. Ekki mér.

Mér finnst vextirnir á Icesave-láninu of háir, sama hvað hver segir. Það er líka enn verið að halda ýmsu leyndu í sambandi við þetta. Ég trúi því að ýmislegt eigi eftir að koma fram um þetta mál og aðdraganda þess. Að Bretar ætli að vera voða góðir við okkur strax á mánudaginn er bara til að auka á okkur þrýstinginn. Hefur ekki áhrif á mig.

Í Moggatetrinu í dag (föstudag) er mér sagt að sé áskorun til þingmanna um að samþykkja Icesave ríkisábyrgðina ekki. Þessi áskorun er frá tveimur virtum lögfræðingum sem eru sannfærandi. Baldvin Jónsson Borgarahreyfingarmaður skrifar líka ágæta blogg-grein um þetta sem hann kallar „Ellefu firrur um Icesave."

Ögmundur segir að stjórnarsamstarfið sé ekki í neinni hættu þó Icesave-frumvarpið verði fellt. Athyglisvert. Heldur stjórnin áfram líka þó ekki verði samþykkt að sækja um aðild að ESB? Vinstri stjórnir lifa oftast ekki mjög lengi. Kannski það sé lykillinn að langlífi þeirra að koma ekki sínum helstu málum fram.

Neyðarlögin eru bastarður. Sett í alltof miklum flýti. Alþingismenn eiga ekki að láta bjóða sér svona vitleysu. Tímapressa af þessu tagi er elsta trikkið í bókinni. Líkur á að þau verði ógilt minnka samt við samþykkt Icesave-samningsins.

Og Valtýr mun hætta. Ég er sannfærður um það.

Ætti að hætta þessu gaspri um þjóðmál. Hugsa að ég sé betri í að skrifa um eitthvað annað. Mest gaman er að lesa um eitthvað löngu liðið. Málefni dagsins gera mann bara þunglyndan. Það er allt svo ömurlegt nema veðrið.


Bloggfærslur 13. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband