713 - "Valtýr á grænni treyju"

Það var Jón Björnsson sem skrifaði skáldsöguna „Valtýr á grænni treyju". Hún var um sakamál eitt fornt sem ég man fremur óljóst eftir. Jón skrifaði líka sögu um dráp Jóns Gerrekssonar ef ég man rétt. Hafði einu sinni heilmikinn áhuga á því máli enda merkilegt mjög. Man eftir Jóni sem bókaverði í Þingholtsstrætinu en það er önnur saga. 

Nú er það annar Valtýr sem tengist öðru sakamáli sem allt snýst um. Valtýr Sigurðsson nefnist hann og er ríkissaksóknari. Vill ekki hætta sem slíkur og segist alls ekkert tengjast þessu sakamáli. Ragna dómsmála segist ekki geta rekið hann þó hún fegin vildi. Við aðrar aðstæður væri það hið besta mál. Hugsum okkur bara ef ráðherrarnir færu að reka hvern annan. Jafnvel þó við völd væri ríkisstjórn sem þolir flest gæti það endað með ósköpum.

Ég hef trú á því að Valtýr hætti því Eva vill losna við hann hvað sem það kostar. Eva Joly fer bráðum að ráða öllu hér á landi (eða ekki) og segir ríkisstjórninni hiklaust fyrir verkum. Sennilega er það ágætt því hún sér sjaldan skóginn fyrir trjánum. (ríkisstjórnin altsvo)

Eva segir að mikilvægast sé að góma bastarðana. Sumir segja að mikilvægast sé að samþykkja (eða fella) Icesave-samninginn. Einhverjir segja að það séu hagsmunir heimilanna. Hverju á maður að trúa? Ekki er stjórnlagaþing á þessum lista eða skattahækkanir. Mér finnst mikilvægt að blogga smá á hverjum degi. Varla öðrum.

Hreppsnefndarmaðurinn Jón notaði orðið nefnilega óhóflega mikið. Nefndin ákvað að lagfæra vegarspotta einn sem hafði áður verið þannig eftir því sem Jón sagði að menn:

Nefnilega í náttmyrkri
nefnilega mættu.
Nefnilega nokkurri
nefnilega hættu.


Bloggfærslur 12. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband