712- Icesave og ríkissaksóknari

Það er vissulega eðlilegt að vera á móti því að samþykkja væntanlegt frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum. Fyrir því eru gild rök. Ég hef hingað til verir hallur undir samþykki en það álit gæti breyst. Helstu rökin fyrir samþykkt frumvarpsins eru að það sé óhjákvæmilegt. Ef þessi ósköp verði ekki samþykkt fari allt til fjandans. Ríkisstjórnin hrökklist frá völdum og alger upplausn verði ofaná. Allir verði á móti okkur Íslendingum og við eigum engan kost annan en að fara aftur í moldarkofana.

Allra best er samt að eiga þann kost að ýta þessu frá sér. Sökin er annarra og ég get bara hætt að hugsa um málið og farið að gera eitthvað annað. Hinir kjörnu alþingismenn hafa boðist til að vera umboðsmenn okkar og taka ábyrgð á þessu. Látum þá gera það. Líklegt er að flestir þeirra finni sér afsakanir fyrir að fylgja sínum formönnum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skoraði áreiðanlega mörg prik með því að lýsa yfir að hún væri á móti þessu þó formaður flokks hennar hafi staðið að samningnum.

Því hefur verið hreyft að eðlilegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er alls ekki fráleitt og mikil spurning hvers vegna lítið er nú rætt um kröfuna um stjórnlagaþing og þjóðaratkvæðagreiðslur.

En hvað tekur við ef frumvarpið verður fellt. Veit það ekki. Eflaust ekkert gott. Þetta mál er bara stærra og afmarkaðra en það sem alþingismenn eru vanir að greiða atkvæði um. Rökin fyrir samþykkt eru alveg gild. Einkum hugnast mörgum frestunin vel og sú staðreynd að nú getum við farið að snúa okkur að öðru án þess að þetta sé hangandi yfir okkur. Óvissan og kyrrstaðan er alla að drepa.

Ekkert gengur að endurheimta eitthvað af þeim peningum sem stolið var frá okkur. Nú er Eva Joly farin að hafa hátt og gera kröfur á stjórnvöld. Kannski hefur það áhrif. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að dregist hafi að skipa nýjan ríkissaksóknara vegna lagalegra annmarka. Vegna sleifarlags og aumingjaskapar mundi ég segja.


Bloggfærslur 11. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband