702 - Greppaminni og grein eftir Gísla Sigurðsson

Er um þessar mundir að lesa allmerkilega nýútkomna bók. Hún heitir „Greppaminni" og er rit til heiðurs Vésteini Ólasyni sjötugum en það varð hann 14. febrúar í ár. Bókin mun hafa komið út um það leyti.

Sú grein sem ég las fyrst allra í bókinni er eftir Gísla Sigurðsson og hann nefnir hana: „Þögnin um gelísk áhrif á Íslandi." Þar er rætt um efni sem ég hef talsverðan áhuga á. Nefnilega uppruna Íslendinga og landnámið fyrir landnám.

Á sama hátt og það virðist álit flestra að yfirleitt sé hægt að kenna Dönum um flest það sem miður hefur farið hér á Íslandi á undanförnum öldum og allt fram til 1918 virðist það vera skoðun flestra að norrænir menn hafi numið hér land um 874 eða þar um bil og hafi verið að mestu einir um landnámið.

Báðar þessar skoðanir eru rangar og er margt sem styður þá ályktun.

Þetta með Danina er margtugginn sannleikur. Það voru ekki danir sem héldu okkur niðri og komu í veg fyrir verklegar framfarir í landinu og þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna heldur vistarbandið og þarmeð sú stétt stórbænda sem flestar jarðirnar átti á landinu og réði því sem hún vildi. Hungursneyðir og hvers kyns óáran var fremur þeim að kenna en Dönum. Einkum var það þó auðvitað veðráttan og tíðarfarið sem olli þessu.

Sú skoðun að norrænt fólk hafi numið hér land undir lok níundu aldar og aðrir átt þar afar lítinn hlut að máli er samkvæmt nýjustu erfðafræðirökum alröng. Keltnesk eða gelísk áhrif hafa alltaf verið mikil hér á landi þó reynt hafi verið að gera sem minnst úr þeim.

Nýjustu erfðafræðilegar rannsóknir og athuganir þær sem Jón Steffensen gerði á sínum tíma á Landnámu sýna að lágstéttarfólk (þrælar og fátæklingar) ásamt kvenfólki hefur að verulegum hluta verið af keltneskum uppruna á landnámsöld. Sú yfirstétt karla sem mestu réði hefur hinsvegar verið að stærstum hluta af norrænum uppruna. Hversu útbreidd byggð var í landinu áður en Norðmenn námu hér land í allstórum stíl á síðari hluta níundu aldar er erfitt að vita. Kannski var sú byggð einkum bundin við ákveðin svæði. Að hér hafi einungis verið örfáir einsetumenn er fráleitt.

Norræn tunga varð ráðandi á Íslandi og útrýmdi að mestu áhrifum gelískunnar Á sumum svæðum landsins, einkum á Vesturlandi og Suðurlandi eru þó áhrif gelísku á örnefni og annað þess háttar augljós.

Áhugaverð er sú kenning Gísla sem birtist í áminnstri grein í Greppatali að sú bókmenntalega og skáldlega æð sem einkum aðgreindi Íslendinga frá öðru norrænu fólki á landnámsöld og fyrstu aldirnar þar á eftir sé aðallega tilkomin vegna gelískra áhrifa.

Skemmtileg er frásögn hans af því að Þorgerður brák hafi líklega verið írskur þræll og kennt Agli Skallagrímssyni að yrkja. Sömuleiðis er frásögn hans af sölunum sem Þorgerður dóttir Egils færði honum til að rífa hann upp úr harmi sínum góð. Þorgerður á að hafa lært af Ólafi Pá manni sínum og Melkorku tengdamóður sinni að meta söl en augljóst er af frásögn Eglu að Egill kannaðist ekki við þann sið.

Kannski eigum við einkum fólki frá Bretlandseyjum að þakka að við erum og höfum alltaf verið mikið gefin fyrir skáldskap og bókmenntir.

Svo eru hér nokkrar nýlegar myndir.

IMG 2770Hér sést vel hið fagra fjall Akrafjall.

IMG 2780Þessi viti er á Akranesi.

IMG 2782Þessi klöpp er líka á Akranesi.

IMG 2801Hér gnæfa Keilir og Trölladyngja yfir byggðinni og eftir nýjustu fregnum að dæma er jörð farin að hrista sig á þessum slóðum.

IMG 2831Mörkin tala (saman). Þessi mynd er tekin í Kópavogi.

IMG 2839Vörur til sölu í Bónus við Smáratorg.

IMG 2857Illúðleg ský við Kársnesið.

IMG 2860Sólarlagið nálgast.


Bloggfærslur 1. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband