678- Meira um dauðarefsingar

Nú ætla ég í bili ekkert að skrifa um bankahrunið eða Evrópusambandið. Sjálfur er ég orðinn hundleiður á þessum málum og reikna með að aðrir séu það líka. 

Það sem ég sagði í bloggfærslu um daginn varðandi dauðarefsingar hefur vakið dálitla athygli. Athugasemdir eru allmargar og enn bætist við. Mesta athygli virtist mér vekja fullyrðing mín sem var á þessa leið: „Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað."

Sennilega er ástæða til að fjölyrða nokkuð um þetta. Afbrotafræðingar sem ég hef lesið skýrslur eftir hafa lengi haldið þessu fram. Ég get þó ekki vísað í neinar sérstakar rannsóknir í þessu sambandi enda safna ég ekki greinum eða linkum um þetta. Reyni heldur að leggja innihald greinanna á minnið. Þar litast efni þeirra oft af einhverju sem ég hef áður heyrt eða haldið um viðkomandi efni.

Ég hélt að öllum væri ljóst að þyngd refsinga stendur almennt ekki í beinu sambandi við fjölda afbrota eða alvarleika þeirra þó svo geti auðvitað verið í einstökum tilvikum. Fólk heldur oft að afbrot í nærumhverfi sínu fari einkum eftir því hve þungar refsingar eru og að því þyngri sem þær eru því meiri sé fælingarmáttur þeirra.

Skýrslur sýna að þarna er ekkert beint samband á milli. Mörg önnur atriði skipta máli. Sambandið getur sem hægast verið öfugt. Það er að segja að þungar refsingar stuðli að því að alvarleiki afbrota aukist. Fælingarmáttur dauðarefsinga er til dæmis örugglega ofmetinn af flestum og segja má að þar ríki hefndin ein. Mikil refsigleði getur valdið stórfelldum vandræðum jafnvel þó horft sé framhjá líðan þeirra sem fyrir henni verða.

Kynþáttamál blönduðust svolítið inn í umræðurnar í athugasemdum við áðurnefnda færslu án míns tilverknaðar. Þau mál koma þessu við en ráða engum úrslitum. Fáránlegt er að halda að dómstólar í Bandaríkjunum stuðli viljandi að kynþáttamisrétti. Misrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu getur þó haft áhrif á úrslit dóma.

Í Bandaríkunum sem líta má á vissan hátt á sem höfuðvígi dauðarefsinga hafa rannsóknir sýnt að verulegur meirihluti er gegn þeim ef tryggt væri að þeir afbrotamenn sem annars yrðu dæmdir til dauða fengju alls ekki tækifæri til að endurtaka verknað sinn. Vernd fyrir endurtekningu er það sem stuðningsmenn dauðarefsinga bera einkum fyrir sig. Andstaða við þessa tegund refsinga virðist einkum vera vegna mannúðarsjónarmiða og vegna mistaka sem örugglega verða þó reynt sé að tryggja að svo sé ekki.


Bloggfærslur 8. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband