700 - Þjóðaratkvæðagreiðsla eða -greiðslur um Evrópusambandsaðild

Best að blogga aðeins um mál málanna. Evrópusambandsaðild kemur til með að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar á svipaðan hátt og NATO-aðildin og hersetan gerði á sínum tíma. Stjórnmálamenn munu reyna að forðast slíkt en svo mikill hiti er í mönnum að líklega er það ekki hægt. 

Þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst aldrei um NATO-aðildina og hersetuna en hugsanlegt er að andstæðingar hersetunnar og NATO-aðildarinnar með kommúnista í broddi fylkingar hefðu sigrað í þeirri atkvæðagreiðslu.

Sá munur er einkum á því sem nú er um rætt og kalda stríðinu að nú verður næstum örugglega þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er samt ekkert víst að hún lægi öldurnar. Að minnsta kosti ekki ef úrslitin verða ekki mjög sannfærandi. Alls ekki er víst að þeir sem tapa viðurkenni ósigur sinn.

Ýmislegt bendir til að til úrslita dragi í þessu mikla deilumáli strax á þessu ári eða næsta. Viðsjár milli manna munu aukast gríðarlega og engin leið er að spá fyrir hvernig ástandið verður.

Ég er svosem ennþá fylgjandi Evrópusambandsaðild en get ekki með nokkru móti fallist á þann fyrirgang sem í mönnum er. Að mínu mati er það mjög hæpin fullyrðing að allt verði okkur Íslendingum hliðhollara eftir að sótt hefur verið um aðild. Seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafa verið að reyna að spila á markaðinn og hugi fólks með svipuðum hætti mánuðum saman með mjög litlum árangri. Manipulering af þessu tagi gengur einfaldlega ekki upp. Ást Svía á okkur Íslendingum er heldur ekki sannfærandi.

Við Íslendingar höfum beðið lengi eftir að sækja um aðild. Vandalaust er með öllu að bíða nokkra mánuði í viðbót. Ég hef áður haldið því fram að tvöföld atkvæðagreiðsla gagnist bara fylgjendum aðildar. Ég er enn sömu skoðunar og tel að atkvæðagreiðsla um að sækja um vinnist auðveldlega af þeim sem það vilja. Þar með verður mun auðveldara að fá fólk til að samþykkja aðild ef sæmilegir samningar nást.

Á sama hátt og vinstri menn vildu umfram allt þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO-aðildina og hersetuna munu andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu berjast á móti þjóðaratkvæðagreiðslu af öllum kröftum.


Bloggfærslur 30. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband