673- Niels Bohr og skeifan. Einnig svolítið um Tryggva Þór Herbertsson

Fyrir ofan útidyrnar á sumarhúsi danska kjarnorkuvísindamannsins Niels Bohr hékk mikið notuð, skökk og skæld skeifa. Vinir vísindamannsins sem voru í heimsókn gerðu góðlátlegt grín að honum fyrir þetta. Varla væri hann, sjálfur vísindamaðurinn, trúaður á svona hindurvitni og hégiljur eins og að skeifur fyrir ofan útidyrahurð boðuðu gæfu.

„Mér er sagt að þetta virki alveg jafnt hvort sem maður trúir á það eða ekki," svaraði Níels.

Svipað er því víst farið með innhverfa íhugun. Mikið létti mér þegar ég las að það skipti engu máli hvort maður tryði á þetta eða ekki. Alltaf virkaði það og hefði gert lengi. Auðvitað væri vissara að fara eftir viðurkenndum aðferðum og ekki sakaði að fara á dýrt námskeið.

Tryggvi Þór Herbertsson eyjubloggari með meiru kveinkar sér undan Netinu. Segir að þar séu þeir sem ekki komast að í viðurkenndum fjölmiðlum. Þetta getur svosem verið rétt en þeir sem gefa sig að stjórnmálum og þess háttar verða að vera undir það búnir að vera milli tannanna á fólki.

Tryggvi lýsir því í sínu síðasta bloggi að hann hafi komist að þessu með því að gúgla nafnið sitt. Síðan segir hann:

Netið hefur fært okkur margt gott en skuggahliðar þess eru að það virðist ala á hatri og mannfyrirlitningu. Því ljótari sem talsmátinn er því hærra er skorað! Fólk sem fékk ekki inn í opinberri umræðu vegna orðavals og öfga hefur nú greiðan aðgang að netinu með talsmáta sinn.

Seinna í blogginu segir Tryggvi og er mikið niðri fyrir:

Venjulegt fólk vill ekki verða fyrir árásum af þessu tagi. Fólk sem hefur mikið til málanna að leggja forðast þess vegna að koma fram með hugmyndir og innlegg í umræðuna. Það óttast að lenda í eiturbyrlurum netsins sem oftar en ekki skrifa nafnlaust. Jafnvel blaðamenn forðast að fjalla um hugmyndir og upplýsingar sem eiturbyrlurunum eru ekki þóknanlegar.

Þetta er skoðanakúgun og er til þess eins fallið að gera umræðuna fátæklegri. Málefnalegri umræðu hefur því sem næst verið útrýmt.

Þetta er íslenska útgáfan af menningarbyltingunni.

Tryggvi opinberar talsverða vanþekkingu á Netinu og umræðunni þar með þessum orðum. Umræðan nú er alls ekki fátæklegri en áður. Hjá fjölmiðlunum er það orðinn hluti af því sem þeir þurfa að sinna að fylgjast með Netinu. Öfgafólkið þar málar sig fljótlega út í horn og fáir nenna að fylgjast með skrifum þess.

Þó ýmislegt sé hægt að gúgla er ekki þar með sagt að margir taki mark á öllu sem skrifað er á Netið. Það er fáránlegt að halda því fram að Netið geri umræðuna fátæklegri og að málefnalegri umræðu hafi verið útrýmt. Sannleikurinn er sá að Netið hefur valdið raunverulegri byltingu. Nú er fólk ekki lengur eingöngu uppá stjórnvöld og fjölmiðla komið heldur hefur Netið bæst við og þar getur fólk haft sína hentisemi með fréttaöflun.


Bloggfærslur 3. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband