695- Samtíningur og sitthvað - afrakstur tiltektar

Nýlega var frá því sagt að prestur hafi keypt hlutabréf í Stoke um árið og sjái nú loksins fram á að endurheimta hugsanlega eitthvað af því fé sem þar fór forgörðum. Ég var einn af þeim vitleysingum sem fylgdist á sínum tíma vel með Stoke ævintýrinu. Sem betur fer lagði ég þó ekki peninga í það. Vest Ham sagan fór víst eitthvað illa líka. Ekki er fullreynt ennþá um þessi mál en knattspyrnuliðin á Bretlandi eru í dýrari kantinum fyrir mig. 

Þetta með prinsinn elgtanaða er merkilegt mál. Vonandi fer þó allt saman vel. Ekki finnst mér líklegt að miklar fjárhæðir endurheimtist eftir allan þennan tíma en það skiptir kannski ekki mestu máli. Aðalmálið er að góma þyrluflugmanninn son Ólafs kaupfélagsstjóra í Borgarnesi.

Netið er stórhættulegt. Þriggja ára keypti skurðgröfu á Netinu. Menn hafa keypt allan fjárann í gegnum síma. Er hann ekki stórhættulegur líka? Og hugsið ykkur allan óþverrann og lestina. Ég fæ bara klígju.

Skottulækningar eru vinsælli en málfar. Eiður Guðnason getur borið vitni um það. Hann réðist um daginn á detox-vitleysuna og lifewave og allt það. Ekki stóð á viðbrögðunum. Hver um aðra þvera ryðjast Jónínurnar fram og vitna um afeitrunina einu og sönnu.

Á toppfm.is er besta útvarpsstöðin á Akranesi samkvæmt topplistanum hans Gunnars Helga Eysteinssonar. Þetta finnst mér alveg magnað. Vissi ekki einu sinni að það væru margar útvarpsstöðvar á Akranesi.

Ég á alltaf dálítið erfitt með mig þegar vitleysur Evrópuandstæðinga ganga úr hófi. Það er ekki nóg með að þessir andskotar í Brussel ætli að ræna okkur sjálfstæðinu og taka traustataki allar okkar auðlindir heldur eru þeir líka útsettir með að eitra fyrir okkur með því að flytja hingað handónýtar landbúnaðarafurðir. Það nýjasta er svo að við Íslendingar verðum að vara okkur mjög á herskyldunni sem áreiðanlega komi í stórríkinu sem verið sé að stofna.

 

Bloggfærslur 25. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband