671- Á fésbókina fer ég ei

Nei, ég held að ég fari ekkert á fésbókina. Mér líst ekki á þetta. Má varla vera að því að sinna mínum blogglestri og bloggskrifum, mínum tölvupósti, mínum bréfskákum á Netinu og öllu öðru í kjötheimum svo sem lestri, vinnu og svínaflensuvörnum þó ég fari nú ekki að bæta óþarfa eins og fésbókinni við. 

Fólk virðist festast yfir þessu eins og flugur á límpappír. Þetta er eflaust gaman en meðan maður veit sem minnst um þetta allt saman sparar maður gríðarlegan tíma sem annars væri tekinn frá öðru þarfara.

Ekki nær mér fésbók fín.
Finnst hún slæmur siður.
Alla þessa ógnar pín
ætti að leggja niður.

Gúgli segir að þann 12. maí 1996 hafi Björn sjálfur Bjarnason skrifað þennan texta á sinn einkavef:

Ég sé, að birst hefur á netinu frásögn eftir Sæmund nokkurn Bjarnason, sem hann kallar Ævintýrið um góða kaupmanninn, ef ég man rétt, og á víst að vera neyðarleg lýsing á því ferli, sem leiddi til þess, að menntamálaráðuneytið keypti þann hluta af Ísmennt, sem þjónar skólakerfinu.

Þarna er stórmennið sjálft að skrifa um mig. Ekki veit ég af hverju mér datt í hug að gúgla þessi ósköp. Ég man óljóst eftir þessu ævintýri en á það kannski hvergi skrifað. Líklega birti Bjössi í Snerpu þetta fyrir mig á sínum tíma.

Þegar þetta var hafði mér verið úthýst af Imbu og sárnað það eitthvað. Guðmundur meiraprófsbílstjóri (sem ég held endilega að sé sá sami Guðmundur Ólafsson og nú lætur gamminn geysa á Útvarpi sögu með Sigurði G. Tómassyni) atyrti mig líka fyrir að ráðast svona á öðlinginn Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri. Guðmundur taldi mig hafa vegið að Pétri úr launsátri en sannleikurinn er sá að ég neitaði aldrei að hafa samið þessa sögu og birti hana undir fullu nafni.

Kannski er þetta partur af sögu Internetsins á Íslandi. BBS-in voru líka merkilegt fyrirbrigði þó fáir kannist við þau núna.


Bloggfærslur 1. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband