2773 - Mitt (næstum því) daglega blogg

Horfði á yfirheyslurnar yfir Kavanaugh og Blasey Ford að litlu leyti en þó nógu miklu til að mynda mér skoðun á þessum tveimur aðilum sem þrýst hefur verið í sviðsljós fjölmiðlanna. Þó ég styðji fremur Blasey Ford blandast mér ekki hugur um það að atkvæðagreiðslan í þingnefndinni og seinna í senatinu sjálfu verður að öllum líkindum Kavanaugh í hag. Að mörgu leyti hafa línurnar milli flokkanna í Bandaríska þinginu og víðar í þjóðlífinu skerpst til muna síðustu árin. Áður fyrr voru demókratar úr Suðurríkjunum svo íhaldssamir að þeir studdu repúblikana oft. Hinir hæstaréttardómararnir munu sennilega taka Kavanaugh sæmilega vel. Annað mál er síðan hvaða áhrif þetta hefur hugsanlega á kosningarnar í nóvember. Þau gætu orðið talsverð. #MeToo byltingin gæti hérna skipt miklu máli.

Þó Bandarísk stjórnmál séu meðal minna helstu áhugamála einmitt núna, er því ekki að leyna að margt annað er að gerast um þessar mundir. Mjög margir þurfa að láta ljós sitt skína í sambandi við Guðmundar og Geirfinnsmálin. Þó greinilegt sé að þau mál öll hafi haft talsverð áhrif á íslensku þjóðina og alveg sérstaklega auðvitað á sakborningana og aðstandendur þeirra var ekki við því að búast að Hæstiréttur tæki öðruvísi á málinu en hann gerði. Þó þessi niðurstaða sé útaf fyrir sig ágæt, er ekki hægt að búast við því að þessu máli og öllum öngum þess sé að fullu lokið.

Það hentar mér ágætlega að vaða elginn á þennan hátt. Sennilega er það Jónas Kristjánsson heitinn fyrrverandi ritstjóri, sem hefur haft mest bloggáhrif á mig síðustu árin. Hann skrifaði eingöngu í bloggi sínu um stjórnmál og var oft harðorður. Ég er aftur á móti linari í allri afstöðu og skrifa þar að auki um allt mögulegt. Annar bloggari sem hefur gegnum tíðina haft talsverð árhrif á mig er Jens Guð. Hans sérgreinar eru að mér hefur sýnst Færeyjar og popptónlist, en þar er ég alveg blankur, auk þess sem hann bloggar nokkuð oft. Kímni hans og kurteisi eru líka meðal hans mestu kosta. Ómar Ragnarsson bloggar venjulega oft á dag og er mikið lesinn. Einhvern vegin hef ég samt á tilfinnigunni að hann sé að keppa um vinsældir. Mér finnst hann alls ekki þurfa þess.

Landlæg er sú tilhneiging okkar Íslendinga að svindla á ríkinu ef hægt er. Sameiginleg rými eru eitur í beinum margra og tyggjóklessur og annað rusl út um allt, eru greinilegur vitnisburður um slíkt. Skattsvik hverskonar voru og eru stunduð hérlendis eins og hver önnur íþrótt. Sérstaklega eiga allir sem reka smáfyrirtæki auðvelt með þetta. Stjórnvöld hafa tekið þann pól í hæðina að best sé að hefna sín á almenningi með því að túlka allt sem mögulegt er sér í hag. Þessvegna meðal annars er það sem sýslumenn allskonar komast upp með hverskonar vitleysu. Ef í harðbakkann slær geta þeir leitað til lögfræðingastóðsins sem alltaf er tilbúið til að mæla með hverju sem er, ef sæmilega er borgað. Fjölyrði ekki meira um þetta, því allir þekkja það á eigin skinni.  Afleiðing af öllu þessu er t.d. virðingarleysi það sem allir bera fyrir Alþingi.

Sagt er að Kata ráði klukkunni. Lengi vel var vafi á kreiki um það hver ætti að sjá um slík mál. Sennilega verður hringlað með klukkuna einu sinni enn á næstunni. Það er svo langt síðan það var gert síðast.

Umferðin um Hvalfjarðargöngin mun sennilega aukast eða minnka á næstunni. Gjaldfrelsi mun ekki ríkja lengi þar. Einu sinni þurfti að borga fyrir að komast til Keflavíkur. Það er sem betur fer liðin tíð.

IMG 2994Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sjaldan séð jafn góða greiningu á siðferði Íslendinga: Almenningur reynir sífellt að svindla á ríkinu. Valdhafar reyna svo að hefna sín á almenningi. „Þeir eru deilugjarnir og illviljaðir, hefnigjarnir, fláráðir og þrællyndir, óhófsamir, lostafullir og saurlífir, svikulir og þjófóttir.“ sagði Blefken á sínum tíma um Íslendinga.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.9.2018 kl. 23:17

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þorsteinn er með þetta að lokinni glæsilegri færslu Sæmundar. Ísland í dag, í sinni tærustu mynd.

 Góðar atundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 29.9.2018 kl. 00:01

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undan skatti alltaf sveik,
elginn líka veður,
oft hjá Trump er allt í steik,
og í mellum reður.

Þorsteinn Briem, 29.9.2018 kl. 10:39

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ætíð Steini stelur vel
stíflar skattinn, veður.
Yfirvöldin ódæl tel.
Alltaf lund það seður.

Sæmundur Bjarnason, 29.9.2018 kl. 14:21

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Þorsteinn. Mér finnst þessi upptalning hjá Blefken eiga ágætlega við yfirvöld á Íslandi bæði nútildags og áður fyrr.

Sæmundur Bjarnason, 29.9.2018 kl. 14:24

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Halldór Egill. Við erum oft sammála held ég.

Sæmundur Bjarnason, 29.9.2018 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband