2768 - Þorvaldur Gylfason

Sautján ár í súginn, sagði Þorvaldur Gylfason í Fréttablaðinu um daginn og var að tala um Bandaríkin og lífskjör þar. Ég segi aftur á móti að Sovétríkin sálugu hafi farið illa með 70 ár í lífi margra, og jafnvel flestra, Rússa og Sovétborgara. Þorvaldur hefur mikið yndi af tölum og dregur margar þeirra fram til þess að sýna fram á líkindi Bandaríkjanna og Íslands í efnahagsmálum og lífskjörum. Einkum á árunum eftir kreppuna miklu árið 2008.  

Auðvitað er Þorvaldur lærður hagfræðingur og mikill skribent sem ég les oft og tek mikið mark á. Samanburður hans á Bandaríkjunum og Íslandi er þó ekki sanngjarn. Fréttir frá Bandaríkjunum heilla mig talsvert. Einkum pólitískar. Íslendingur er ég þó og vil vera. Löndin eru að mínum dómi mjög ólík. Vonandi fáum við aldrei yfir okkur valdamann sem líkur er Donaldi Trump. Sennilega væri Obama mun skárri. Annars kunna litlir Davíðar víða að leynast.

Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla um íslenska pólitík af einhverju viti. Þó er ekki því að leyna að við Íslendingar erum smám saman hættir að vera eins útúrborulegir og við vorum áður fyrr. Samt erum við pínulitlir, en viljum gjarnan sýnast stórir. Mér datt í hug, þegar verið var að stofna Samfylkinguna að Steingrímur Jóhann vildi fremar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn. Nú virðist Samfylkingin undir forystu Loga vera að verða alvöruflokkur. BB er hinsvegar að færa Sjálfstæðisflokkinn niður í lítinn íhaldsflokk. Tölum ekki um Framsóknarflokkinn og afsprengi hans eða önnur undarlegheit í íslenskum stjórnmálum.

Mikið er nú talað um hvort taka megi mark á dómurum leikja í knattspyrnu. Sjálfur minnist ég þess að hafa séð í leik í sjónvarpi að dómari rak vitlausan mann útaf eftir að sparkað var í rassinn á honum (dómaranum altsvo). Hvort sá maður var vitlaus í raun og veru og hvort mistökin voru leiðrétt fljótlega veit ég ekki. Vafasamt er þó að leikurinn hafi verið endurtekinn. Dómarar eru bara mannlegir og auðvitað gera þeir vitleysur.

Mér skilst að til standi að setja hluta af tekjum eða arðgreislum ríkisins í sérstakan varasjóð í líkingu við olíusjóð Norðmanna. Hræddur er ég um að svo verði aldrei. Stjórnmálamenn hér á landi koma sér yfirleitt ekki saman um neitt. Hætt er við að ávallt verði hægt að finna verðug verkefni fyrir peningana og ekki verði safnað í sjóð til mögru áranna þó fögur fyrirheit hljómi um þessar mundir. Meðan þingmenn og aðrir sem í stjórnmálum starfa hugsa minna um þjóðarhag en það sem kynni að koma andstæðingunum illa er engin von til þess að vel fari.

Þekktu sjálfan þig. Sögðu Grikkir til forna. Á margan hátt er það svo að hugurinn stjórnar flestu. Margir sjúkdómar eiga uppruna sinn í heilanum. Er það örugglega þannig að heilinn stjórni öllu? Sumir sjúkdómar eru ættgengir og engin leið er að vita í um uppruna sumra. Eftir því sem árunum fjölgar er maður meira háður vananum. Enda er þægilegast að gera allt mögulegt af því að maður er vanur því. Með því sparar maður heilann. Með því að ganga hægt drepur maður tímann. Ekki held ég þó að það sé aðalástæðan.

Auðvitað er alltof mikið að henda yfir 400 milljónum í að lagfæra gamlan bragga í Nauthólsvíkinni og eyða næstum 100 milljónum í tilgangslausa skrautsýningu á Þingvöllum, en þetta sýnir glögglega að þegar fólk vélar um annarra manna peninga er alltaf hætta á að illa fari.

IMG 7804Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð elskar Donald Trump,
dúfnaheilann spara,
fólin eins og Forrest Gump,
fjári heimskir bara.

Þorsteinn Briem, 21.9.2018 kl. 15:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Donaldinn og Davíð snar
með dúfnaheila sína
elska Steina ekki par.
"Allt í þessu fína."

Sæmundur Bjarnason, 21.9.2018 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband