2047 - Þórdís Þorsteinsdóttir

Oft verður mér hugsað til Bjarna-Dísu eða Þórdísar Þorsteinsdóttur sem uppi var fyrir meira en 200 árum á Austurlandi. Margir kannast við þá sögu og ég hef oftar en einu sinni rifjað hana upp hér. Einnig kom út bók um hana nýlega, en hana hef ég ekki lesið. Segja má að draugatrú sú sem reið húsum á þeim tíma sem hún var uppi hafi gengið af henni dauðri. Vissulega er sú frásögn öll af mjög svo harmrænum toga.

Sumt af því sem okkur þykir sjálfsagt og eðlilegt er vel hugsanlegt að afkomendur okkar álíti fáránlegt mjög eftir 200 ár eða svo. Þessvegna er algjör fordæming á mönnum eða málefnum vafasöm í meira lagi. Ég er svosem ekki með nein ákveðin dæmi í huga en stóryrði þau sem tíðkast í bloggheimum og víðar gætu sem best komið einhverjum í koll síðar meir. Þessvegna er aðgátar þörf í nærveru sálar eins og Einar Benediksson komst svo eftirminnilega að orði. Sú aðgát á þó ekki alltaf við og stundum getur verið rétt að sýna hana ekki til að stuðla að breytingum eða breyttu hugarfari. Kannski verða þær breytingar þó ekki til góðs þegar allt kemur til alls. Afskiptaleysi þarf ekki endilega að vera það sama og skoðanaleysi.

Lítum augnablik á fjórflokkinn gamla. Já, ég kalla hann það. Eiginlega eru merkileg kynslóðaskipti að eiga sér stað núna. Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason eru öll fremur ung miðað við fyrirrennara sína og hafa a.m.k. fremur litla þingreynslu. Kannski er það til bóta og kannski ekki. Þrælatök fjórflokksins á íslensku þjóðlífi kunna að vera að minnka verulega. Vissulega er þörf á að íslensk stjórnmál nútímavæðist. Það má samt ekki verða á kostnað þeirrar samheldni sem einkennt hefur þetta litla land.

Alþjóðavæðingin er að fara illa með Landsspítalann. Læknar vilja ekki starfa þar lengur. Eftir að hafa stundað sitt framhaldsnám erlendis bera læknar að sjálfsögðu kjör og aðbúnað hér heima saman við það sem þeir hafa vanist. Sífellt fleiri stéttir geta gert slíkan samanburð og að endingu verður Ísland láglaunaland mikið og er e.t.v. þegar orðið það.

Egill Helgason skrifaði nýlega um Höfðaborgina og birti mynd þaðan. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur voru helstu fátækrahverfin þar: Pólarnir, Höfðaborg og Bjarnarborg. Pólarnir þó sýnu verstir. Helstu braggahverfin voru horfin. Stór tveggja hæða braggi var þó við Hjarðarhagann og e.t.v. hefur Camp Knox enn verið við lýði að einhverju leyti. Fór aldrei svo langt vestur í bæ. Fyrsta íbúðin sem ég leigði í Reykjavík var í blokkinni á móti stóra bragganum við Hjarðarhaga. Það merkilegasta við þá íbúð fannst mér að hún var á hæðinni fyrir ofan Pétur Guðjónsson rakara, en hann var frægastur rótara þess tíma. Það var Tómas Árnason, seinna fjármálaráðherra sem leigði mér hana.

Sumir virðast álíta að lífið snúist um fótbolta. Aðrir að allt sem fjallar um tuðruspark sé það ómerkilegasta sem til er. Hvorugt er rétt. Mér finnst þó of mikið gert úr því hvað einhverjir segja við einhvern annan að loknum knattspyrnuleik. Að leggja heilu og hálfu fréttatímana undir þessi ósköp finnst mér of langt gengið.

Sagt er frá því í fréttum að Vegagerðin hafi ákveðið að fara yfir í ensku á einhverjum skiltum sem eru á hennar vegum og skrifa þar CLOSED í staðinn fyrir ÓFÆRT eins og áður var. Mér finnst það slæm skipti. Auk þess þýða þessi orð allsekki það sama. Hjá hagstofunni var lengi vel ekki hægt að skrá nöfn í þjóðskrána nema af ákveðinni lengd. Margir urðu fyrir barðinu á þessum fjanda en tölvunum var kennt um. Lengi tíðkaðist líka hjá bönkum og ýmsum opinberum stofnunum að kenna ópersónulegum tölvum um allt sem aflaga fór. Vegagerðin getur ekki einu sinni kennt tölvu um þetta. Skilningleysi túrista er um kennt.

Segja má að í pólitískum skilningi sé velferð andstæðan við réttlæti. Velferð er vitanlega til vinstri á stjórnmálarófinu en réttlæti til hægri. Velferðin er einskonar framlenging á Hróa hattar syndróminu. Semsagt það að stela frá þeim ríku og færa þeim fátæku. Óttalegur kommúnismi eiginlega. Hið endanlega réttlæti er hinsvegar fólgið í því að t.d. í skattalegu tilliti borgi allir jafnmikið. Nefskatturinn er hið fullkomna form réttlætis. Auðvitað má líka notast við hlutfallslegt réttlæti eða réttlæti í prósentum. Það er samt ekki nærri eins réttlátt og nefskatturinn enda féll frú Thatcher víst á honum.  Vitanlega eru allar stjórnmálastefnur sambland af þessu enda er þetta mikil einföldun.

IMG 4096Blóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband