1241 - Endurnýting ehf.

Nú er ég kominn í endurnýtingargírinn fyrir alvöru. Er að hugsa um að endurnýta aðfangadagsfærsluna frá í fyrra. Hún fjallaði víst um aðfangadagsbylinn fræga og var endurnýting líka ef ég man rétt. Aðvörun lokið. Allt hér fyrir aftan er endurnýting.

Held að þetta hafi verið árið 1974 en samkvæmt athugasemdum í fyrra er ekki öruggt að svo sé - hugsanlega var þetta 1971. Svo er þetta endurnýting. Birti þessa frásögn um jólin í fyrra. Aðvörun lokið. 

Ólafsvíkurrútan fór á aðfangadagsmorgun úr höfuðborginni áleiðis til Ólafsvíkur. Veðrið í Reykjavík var sæmilegt en fór versnandi. Þegar komið var vestur á Mýrar var veðrið orðið mjög slæmt. Að lokum var ekki hægt að halda áfram lengur. Var rútan föst í marga klukkutíma en að lokum tókst að snúa henni við og komast um kvöldið til baka til Borgarness.

Ég var ekki í rútunni og veit lítið um hvernig þetta ferðalag gekk fyrir sig. Eflaust hefur það verið sögulegt.

Á þessum tíma var ég verslunarstjóri við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum í Miklaholstshreppi og sá einnig um rekstur veitingahússins sem þar var. Vegamót eru á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem vegurinn skiptist. Annars vegar var farið um Kerlingarskarð yfir í Helgafellssveit og þaðan til Stykkishólms en hinsvegar vestur Staðarsveit og yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Í stað þess að fara yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur mátti auðvitað komast þangað með því að fara fyrir jökul. Nú er svokölluð Vatnaleið farin í stað leiðarinnar um Kerlingarskarð.

Að Vegamótum komu þennan dag tveir menn á vel útbúnum jeppa suður yfir skarðið í veg fyrir rútuna frá Reykjavík. Annar þeirra var bóndinn á Þingvöllum í Helgafellssveit en ekki man ég hver hinn var. Þeir ætluðu að sækja farþega sem von var á með rútunni að sunnan. Þeir komu að Vegamótum um hádegisbilið og þá var veður skaplegt en fór hríðversnandi og loks bárust fréttir um að rútan hefði snúið við og kæmist engan vegin lengra. Þá fóru þeir Helgfellingar að huga að heimferð en komust hvorki lönd né strönd því veðrið var orðið arfavitlaust. Svo svartur var bylurinn að jeppinn sem þeir Helgafellssveitarmenn höfðu lagt rétt hjá veitingahúsinu sást ekki þaðan nema öðru hvoru.

Að því kom að lokað skyldi og áttu þeir félagar ekki um annað að velja en að koma með mér heim í jólamat því veðrið bannaði ferðalög með öllu. Starfsfólk í veitingahúsinu sem var úr sveitinni í kring hafði komist heim til sín við illan leik nokkru áður en lokað var.

Borðuðum við svo jólamatinn í besta yfirlæti og síðan voru pakkar upp teknir að venju. Óalgengt var og er eflaust enn að vera með óvænta matargesti á aðfangadagskvöld.

Um tíuleytið um kvöldið batnaði veðrið talsvert á stuttum tíma og héldu þeim Helgfellingum þá engin bönd. Þeir fóru undireins að athuga hvernig færðin væri á heiðinni. Komu fljótlega aftur og sögðu að eftir því sem þeir best gætu séð væri aðeins einn skafl ofarlega í Seljafellinu. Töldu þeir að mögulegt væri að moka sig í gegnum hann og komast síðan yfir skarðið og í Helgafellssveitina.

Konan mín, Áslaug Benediktsdóttir,  útbjó nesti handa þeim því þeir vildu ólmir freista þess að komast af stað áleiðis heim þó við teldum það óráð því veðrið gæti hæglega versnað aftur. Umtalað var að þeir létu vita daginn eftir hvernig gengið hefði. Vitað var að þó þeir þyrftu að moka mun meir en þeir héldu mundu þeir að minnsta kosti komast í sæluhúsið efst í Kerlingarskarðinu.

Skömmu eftir hádegi á jóladag var hringt til mín og ég látinn vita hvernig gengið hefði. Snjóskaflar í Seljafellinu höfðu verið mun meiri og erfiðari en þeir hugðu. Að lokum urðu þeir að yfirgefa bílinn og héldu gangandi í sæluhúsið.

Þá var veðrið orðið ágætt og þegar þeir höfðu gert sér gott af nestinu ákváðu þeir að halda áfram gangandi niður í Helgafellssveit. Gengu þeir alla jólanóttina og komu ekki til bæja fyrr en komið var undir hádegi á jóladag. Bíllinn var síðan sóttur nokkrum dögum seinna þegar skarðið var opnað.

Þessi aðfangadagsbylur var með þeim hörðustu sem komu meðan ég var á Vegamótum hvað veðurhæð snerti og var ósjaldan til hans vitnað til samanburðar. Snjór var hinsvegar oft meiri. -

IMG 3970Frost.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband