3124 - Um heimspólitík o.fl.

Þrettándinn 2020 er dagurinn sem lýðræðið dó í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég hika ekkert við að segja þetta, því það er hafið yfir allan vafa að næstum allar lýðræðissinnaðar þjóðir í heiminum sjá árásina á þinghúsið í Washingtom í þessu ljósi. Yfirleitt sjá lýðræðisþjóðir í heiminum þetta sem tilraun til valdaráns eins og það vissulega var. Auðvitað er við því að búast að einstaklíngar fái konungs-komplexa, en að annar af stærstu pólitísku flokkunum í þessu víðfeðma ríki sem hingað til hefur af mörgum verið álitið eitt helsta forysturíki lýðræðis í veröldinni, skuli mæla þessu bót er vissulega ógnvekjandi. Repúblikanaflokkurinn í USA hefur tækifæri til þess að segja sig frá þessu í kosningunum sem verða þar í landi næsta haust, en satt að segja er ekkert sem bendir til þess að svo verði gert. Ég hef ekki í hyggju að fjölyrða meira um þetta mál nema sérstakt tilefni verði til þess.

Ég hef gaman af að skrifa. Verst ef það er tóm vitleysa. Mér finnst það reyndar ekki. Vissulega eru bloggin hjá mér orðin allmörg. Einhverntíma (langt innan við 100) fékk ég þá flugu í höfuðið að númera bloggin mín. Þessu hef ég haldið áfram síðan og ekki haldið framhjá Morgunblaðinu að þessu leyti. Samt hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn.

Kannski hefur allt þetta bloggelsi orðið til þess að ég hef ekkert (eða fátt eitt) annað skrifað. Þegar ég bjó á Vegamótum og fyrst á eftir og undan hélt ég dagbækur og skrifaði mikið. Þessar dagbækur eru enn til. Gallinn er bara sá að þó þær séu skrifaðar að mestu laust eftir 1970 eru þær allar (a.m.k. í minningunni) óttalega einhæfar og snúast mest um kynferðismál og klámefni allskonar. Kannski eru þær dæmi um aldarfarið sem þá gilti. Ég verð að reyna að hugga mig við að þær séu einhvers virði sem lýsing á því. Ég hef líka haldið svolítið áfram við dagbókarskrifin en trúað tölvunni fyrir þeim og þau hafa verið ákaflega stopul.

Einsaga sú sem kennd er við prófessor Sigurð Gylfa Magnússon, hefur höfðað mjög til mín. Það sem skrifað er um atburði sem orðið hafa á þeim tíma sem um þá er skrifað er allsekki einskis virði. Jafnvel þó það sé skrifað af óbreyttu alþýðufólki. Þó ég sé af slíku fólki kominn hefur mig aldrei skort einurð til þess að skrifa um skoðanir mínar. Hvort ég hef síðan látið þær í ljós er annar handleggur.

Þegar ég set upp bloggin mín, er ég búinn að lesa þau yfir og leiðrétta ef þarf. Ég nota word og læt mér að mestu í léttu rúmi liggja setningarfræðileg tákn og þessháttar. Hins vegar held ég að ég sé nokkuð sterkur í réttritun auk þess sem ég bý enn að því að hafa lært fingrasetningu á ritvél að Bifröst fyrir rúmlega 60 árum. Vissulega skrifa ég mun hægar nú en áður fyrr, en mér finnst hraðinn alveg nægur. Það sem ég hef einkum á móti nútímanum er hraðinn sem orðinn er á öllu, ekki síst umferðinni. Hún er líka svo mikil í Reykjavíkinni að mig sundlar næstum því. Þá er nú betra að vera hér á Akranesi.

Öllum bloggum læt ég fylgja mynd. Langflestar þeirra hef ég sjálfur tekið, þó hef ég minnkað það mikið og tek ég afar sjaldan sjálfur svokallaðar. Það er að segja myndir af sjálfum mér með eitthvað athyglisvert í baksýn, eins og margir virðast gera.

Oftar en einu sinni hefur mér dottið í hug að nota mér þessa skrifnáttúru mína í eitthvað bitastæðara en blogg. Ekki hefur þó orðið úr því. Það væri þá helst að ég skrifaði ævisögu mína. Hún er að vísu ekkert merkileg eða sérstök, en allt má gera athyglisvert ef á þann hátt er um það fjallað.

Svokallaðir samfélagsmiðlar hafa breytt vestrænu samfélagi verulega. Að flestu leyti hefur það verið til góðs, en óneitanlega hefur það stundum verið til tjóns. Ræði ekki meira um það hér og nú, en vissulega er þetta áhugavert efni.

IMG 4030Einhver mynd.


Bloggfærslur 8. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband