3113 - Snobb

Ekki er að sjá að Trump sé dauður úr öllum æðum. Nýjustu fréttir af honum herma að hann hafi ákveðið að koma á fót fjölmiðli í stíl við Facebook. Honum var nefnilega eins og kunnugt er úthýst á Twitter og Facebook og hefur síðan ekki getað verið með daglegar árásir á menn og málefni. Nú heldur hann semsagt að þetta eigi eftir að breytast. Ekki hefur hann samt tilkynnt opinberlega að hann ætli að reyna að komast í forsetaframboð árið 2024. Þar með væri hann nefnilega að viðurkenna óbeint að Biden hafi unnið síðast.

Trump hefur haldið því fram statt og stöðugt að kosningarnar í fyrra hafi verið svindlkosningar. Ég hef spáði illa fyrir honum, en við skulum sjá til. Þetta með að hann ætli að stofna sinn eigin fjölmiðil í byrjun næsta árs er víst alveg satt. Nú kemur Þorsteinn Siglaugsson sennilega og óskar mér til hamingju með að fá eitthvað til að skrifa um. Ég er samt ekki viss um að þessi fjölmiðill hans verði til stórræðanna. Fésbókin er ekkert lamb að leika sér við. Og Twitter ekki heldur. Til stendur að stofna eignarhaldsfélag og nefna eitthvað annað utanum fésbók og fleira. Sykurbergur er víst orðinn leiður á þessari sífelldu neikvæðu umræðu um fésbók.

Helmingurinn af allri þeirri svokölluðu menningarumræðu sem ber fyrir mín augu og eyru er bölvað snobb. Þetta get ég af augljósum ástæðum ekki rökstutt, því þá mundu lesendur mínir (þessir fáeinu) rísa upp á afturfæturna og mótmæla hástöfum og lofsyngja það sem ég hef rakkað niður. Vissulega er ég óttalega neikvæður, en er sú jákvæðni sem heimtuð er af öllum nokkuð betri? Já, allir þykjast vera skelfilega jákvæðir á félagslegu miðlunum, en eru oftast í raun óttalega neikvæðir. Neikvæðnin er í sannleika sagt alfa og omega okkar Íslendinga. Stundum er reynt að færa hana í jákvæðan búning, en það tekst ekki alltaf. Tilfinningavella sú og trúarhiti sem einkennir alla umfjöllun um svokallaða loftslagsvá og flóttamenn er nánast geðveikisleg og í raun neikvæð mjög, því þetta altsaman fælir í stórum stíl þá frá boðskapnum sem vel gætu fleytt honum eitthvað áfram. Í raun er þó fátt meira misnotað en blessuð geðveikin. Ef reynt er að afsaka glæpamenn og rugludalla er venjulega sagt að þeir séu geðveikir og þarmeð á að hætta að tala um þá og snúa sér að geðveiki almennt. Hún er víst stórhættuleg, að sagt er.

IMG 4163Einhver mynd.


Bloggfærslur 26. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband