2876 - Mið-Austurlönd

Fyrir þá sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum er ekki neitt spennandi við það að velta fyrir sér hver verði í framboði fyrir repúblikana við forsetakosningarnar á næsta ári. Auðvitað verður það Trump. Hinsvegar er um auðugri garð að gresja ef litið er til demókrata. Þó má segja að það séu einkum þrír sem hafa skorið sig úr þar hingað til. Það eru: Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og öldungardeildarþingmaður, Elizabeth Warren öldunardeildarþingmaður og lagaprófessor ásamt Bernie gamla Sanders sem tókst á við Clinton sællar minningar árið 2016.

Biden þorði ekki að berjast við Hillary þá og eftir því sem haldið er fram í einhverjum miðlum langaði hann til þess og var e.t.v. að hugsa um Warren sem varaforsetaefni. Ég á von á því að baráttan komi til með að standa á milli Biden og Warren og þó ég hafi fyrir nokkru spáð Biden sigri, er ég meira og meira farinn að hallast að sigri Warren. Segja má þó að hún standi meira til vinstri en Biden sem er fulltrúi miðjunnar í flokknum. Kannski eru bandaríkjamenn ekki tilbúnir til þeirrar vinstri stefnu sem Warren er fulltrúi fyrir. Sú stefna yrði samt sögð ansi hægrisinnuð hérna á Íslandi. Lítill vafi er þó talinn á því að unga fólkið muni vilja frjálslyndi á borð við það sem tíðkast í Evrópu.

Auðvitað mundi ég kjósa demókrata ef ég væri bandaríkjamaður, þó allar kosningar þar séu alfarið á valdi peningaaflanna. Þess vegna er ég viss um að fráleitt eru allir mér sammála um þessa skoðun. Bandaríkjamönnum hefur tekist furðanlega að halda í tveggja flokka kerfið. Vissulega hefur það kerfi ýmsa kosti, en jafnframt talsverða galla. Sú öfgapólitík sem þar ríður húsum er að miklu leyti tilkomin vegna þessa óeðlilega kerfis. Guðstrúin og kapítalisminn spillir þar fyrir ýmsu.

Hef undanfarið verið að lesa bókina um Mið-Austurlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Margt athyglisvert kemur fram í þeirri bók. Ég er samt ekki nærri búinn með hana. Þar er meðal annars rætt ítarlega um Palestínuvandamálið. Vissulega er Magnús hlynntur Palestínumönnum, enda hafa síonistar farið mjög halloka að undanförnu í áróðurstríðinu, sem ég leyfi mér að kalla svo. Pólitískt landslag er mjög að breytast um þessar mundir. Lítið þýðir að tala um hægri og vinstri. Mun árangursríkara er að tala um flóttamenn og hælisleitendur. Nú eða feminista og feðraveldi. Ágreiningsefni má alltaf finna.

Ljótustu orð í íslensku eru kannski þjóðernishyggja og heimsvaldastefna. Meðal annars þessvegna má segja að sjálfstæðisbarátta Katalóníumanna eigi sér stað á vitlausum tíma. Við íslendingar fengum okkar sjálfstæði árið 1918, hvað sem kjötfars og súpur segja. Þetta gerðist í lok fyrri heimsstyrjaldar en segja má að vandræðin í Mið-Austurlöndum hefjist einmitt um það leyti. Það var svo í lok seinni heimsstyrjaldarinnar sem við stofnuðum lýðveldi hér á landi með stuðningi USA.

IMG 6688Einhver mynd.


Bloggfærslur 9. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband