2869 - Þriðji orkupakkinn

Í mínum huga eru Íslendingasögurnar bara þrjár: Njála, Laxdæla og Eyrbyggja. Flestir mundu þó telja Hrafnkötlu, Egilssögu og Grettissögu þarna með. Þessar sögur eru samdar sem bókmenntaverk. Allt annað finnst mér vera samtíningur og sitthvað. Auðvitað eru fáir á sama máli og ég um þetta. Sem betur fer hef ég lítið vit á þessu og ég var einn af þeim sem var næstum alveg farinn að trúa Bergsveini Birgissyni þegar hann í sínum langa formála beitti allri sinni kunnáttu og færni til þess að telja saklausum lesendum sínum trú um að fundist hefði ein Íslendingasaga til viðbótar og fjallaði hún um „svarta víkinginn“ sem hann nefndi svo.

Eina bloggið sem ég les næstum daglega eru bakþankar Fréttablaðsins. Stundum er ég sammála því sem þar er sagt, en sundum með öllu ósammála. Aðalkostur þess bloggs er að það eru hinir og þessir sem skrifa það. Öfugt við forystugreinar blaðsins er það ekki alltaf ýkja hátíðlegt. Stundum er það beinlíkis skemmtilegt, en það eru forystugreinarnar aldrei. Tveir Guðmundar eru mínir uppáhaldsbloggarar um þessar mundir. Steingrímsson og Brynjólfsson báðir skrifa þeir öðru hvoru í Fréttablaðið. Ég viðurkenni þó að oftast er Mogginn efnismeiri en Fréttablaðið, en hann er líka ekki ókeypis.

Tveimur vísum man ég eftir sem fjalla um presta. Sú fyrri er svona.
Séra Magnús settist uppá Skjóna
sá var ekki líkur neinum dóna.
Hann var glaður.
hátt agtaður
Höfðingsmaður.
Honum ber að þjóna.

Hin er þannig.
Mér er sem ég sjái hann Kossút
með svipu í hendi reka hross út.
Sína gerir hann svipu upp vega
séra Stefán á Mosfelli-lega.

Enga hugmynd hef ég um eftir hverja þessar vísur eru. Enda finnst mér það lítlu máli skipta. Báðar eru vísurnar samt góðar og falla mér fremur vel í geð. Unglingum dagsins finnst sjálfsagt lítið til þeirra koma en það segir afar lítið um gæði vísnanna.

Ekki er ég Miðflokksmaður og seint mundi ég styðja Sigmund Davíð í öllum hans vitleysum. Ekki er ég heldur neinn stjórnkerfisfræðingur. Hinsvegar finnst mér Sigmundur og samflokksmenn hans hafa dálítið fyrir sér í sambandi við O3. Ekki gengur að hægt sé að smeygja ýmsu sem hefur lagagildi framhjá forsetanum með því að segja bara að það séu þingsályktanir en ekki lög og honum komi það ekkert við. Sá held ég að hafi ekki verið skilningur þeirra sem samþykktu núverandi stjórnarskrá. Samt er ég alveg viss um að Guðni forseti mundi ekki senda O3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt eru þær of fáar og þar að auki ekki neitt sem skyldar alþingi til að taka mark á þeim, enda gerist það ekki. A.m.k. ekki alltaf. Stundum eru þær líka svo klaufalega orðaðar að leggja má margskonar skilning í þær. Já, ég er að tala um nýju stjórnarskrána til dæmis. Minn skilningur er sá að alþingisfólk séu þjónar almennings en ekki öfugt.

Einhver mynd.


Bloggfærslur 29. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband