2867 - The martian

Aldrei eða næstum aldrei eru gestir sem koma við hérna á síðunni fleiri en nokkur hundruð á dag þegar ég læt svo lítið að skrifa, en mér er alveg sama. Mín vegna mættu þeir svosem vera fleiri. Ekki hef ég neina hugmynd um hverjir þetta eru og eiginlega er mér alveg sama. Auðvitað veit ég um þá sem skrifa athugasemdir hjá mér og vitanlega reikna ég með að þeir skoði bloggið mitt næstum alltaf. Auðvitað mætti svosem skrifa á hverjum degi, jafnvel oft á dag eins og sumir gera. Mér finnst samt ekki taka því.

Já, alveg rétt. Ég var víst að tala um geimferðir um daginn. Þessi tími er vel valinn til þess. Þó ætla ég ekki að skrifa um tunglgönguna sem væri þó vert að gera. Ég ætlaði að minnast á bók sem ég las um daginn. Original bók var þetta þó ekki, heldur fremur ítarleg endursögn á allfrægri bók eftir Andy Weir. Bók þessi heitir „The Martian“ og er á ensku. Amazon bauð uppá hana án endurgjalds fyrir nokkru og að sjálfsögðu nýtti ég mér það.

Bók þessi fjallar um mann sem fyrir slysni er skilinn eftir á Mars. Hann er þáttakandi í þriðju mönnuðu geimferðinni þangað og slasast í miklu roki þar og er álitinn dauður af félögum sínum sem flýta sér í burtu. Gert hafði verið ráð fyrir að nokkrir menn gætu verið þarna í daga eða vikur og gert ýmsar tilraunir.

Öll er þessi saga með miklum raunveruleikablæ, m.a. vegna þess að höfundurinn hefur kynnt sér þessi mál öll ítarlega og er vel að sér um þau vísindi sem þarf að kunna skil á, til þess að svona ferð geti tekist. Og hann kemur því svo vel frá sér að allir ættu að geta skilið hann auðveldlega.

Í bókinni, sem naut mikilla vinsælda þegar hún kom út fyrir nokkrum árum, er svo öllu sem fyrir þennan óheppna geimfara kom og tilraunum til að bjarga honum, lýst í miklum smáatriðum. Úr þess verður svo hin mesta spennusaga, sem gaman er að lesa, en ég ætla ekki að segja hvernig hún endar til að eyðilegga ekki fyrir væntanlegum lesendum.

Gerð hefur verið kvikmynd eftir sögunni og leikur Matt Damon aðalhlutverkið. Upphaflega var gert ráð fyrir að kvikmynd þessi yrði frumsýnd haustið 2015, en ég veit ekki hvort það hefur staðist.

Svo er ég að lesa núna bókina „2052, Svipmyndir úr framtíðinni“. Sú bók er frá bókasafninu hér á Skaganum. Hún er á islensku og hefur inni að halda einar 24 smásögur eftir ýmsa höfunda. Ég er ekki búinn með nema rétt um helminginn af henni, en mér finnst sögurnar í henni vera ansi misjafnar og flestar í lélegri kantinum. En ég er nú oftast svo neikvæður að það er ekki að marka.

Af öðrum bókum sem ég fékk lánaðar á bóksafninu í gær eða fyrradag má nefna „Dyr opnast“ eftir Hermann Stefánsson. Kannski geri ég henni einhver skil í næsta bloggi.

IMG 6816Einhver mynd.


Bloggfærslur 21. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband