2865 - Um Tromparann og stjórnmál í USA

Sagt er að afi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi verið rekinn úr landi vegna þess að hann hafi reynt að koma sér undan herskyldu. Sennilega er þetta eins og hver önnur „fake-news“ enda höfð eftir CNN. Trump virðist halda að enn á ný sé hægt í Bandaríkjunum að veifa rasistaspjaldinu og með því fá nægilega mörg atkvæði til þess að vera áfram við völd. Svo er þó ekki. Sú stefna sem kennd er við Skandinavíu er komin til Ameríku. Ekki er hægt fyrir hann að búast við því að kvenfyrirlitning hans og rasismi fleyti honum áfram í næstu kosningum.

Ofanritaða klausu setti ég á fésbókina og ekki stóð á viðbrögðunum. Siggi Grétars var mér sammála að þessu sinni eins og oft áður, en ekki átti ég von á að sá maður taki upp hanskann fyrir Trump, sem það gerði. Margt og mikið gæti ég skrifað um Trump en mér finnst hann ekki vera þess virði. Þeir eru til, jafvel hér á Íslandi, sem lepja allt upp sem stuðingsmenn hans í USA og hann sjálfur halda fram. En ekki hann ég.

Oft hef ég skrifað um stjórnmál og jafnvel um Trump Bandaríkjaforseta. Undarlegur er sá misskilingur margra að Sjálfstæðisflokkurinn eigi margt að sækja til Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Sem best gætu þeir stutt Demókrataflokkinn þar og verið samt eins hægri sinnaðir og þeim sýnist. Öfgasinnaðir hægri menn, eins og t.d. Davíð Oddsson hafa átt sér skjól og griðastað lengi í sjálfstæðisflokknum, en eru nú hugsanlega á förum þaðan. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir hve gagntæk sú bylting er sem kennd er við samfélagsmiðla og metoo-byltinguna, verða bara að bíta í það súra epli að vera orðnir úreltir. Lítill vafi er t.d. á því að Doddsson er kominn langt framyfir síðasta söludag.

Oft hefur það verið sagt um þá sem blogga eða skrifa í samfélagsmiðla, að þeir sjáist ekki fyrir í málflutningi sínum. Sumir eru greinilega orðljótari en aðrir. Samt hef ég hingað til ekki álitið mig vera orðljótari en þörf er á. Vissulega er oft þörf á gætni í orðavali. En líka getur verið hættulegt að forðast um of að styggja þá sem styggja þarf.

Því er ekki hægt að neita að með gjörðum sínum hefur Trump Bandaríkjaforseti gengið gegn stjórnkerfinu, en hann hefur líka gengið gegn öllu velsæmi. Samt þykist hann stundum vera voðalega forsetalegur, hátíðlegur og reffilegur. Einkum virðist það vera gert til að auka trú pöpulsins í Bandaríkjunum á að Kanverjar séu Guðs útvalda þjóð. Hugsanlega breytist þetta, en ég er hræddur um að það gerist mjög hægt og taki langan tíma. Óvinsældir Trumps utan Bandaríkjanna eru miklar, en meðan hann nýtur stuðnings Repúblikanaflokksins í USA er honum óhætt. A.m.k. fram að næstu kosningum þar.

Þetta blogg snýst að mestu leyti um Tromparann og við því er lítið að gera. Ég hugsa bara svona. Uppáhalds pistlahöfundur minn í Fréttablaðinu um þessar mundir er Guðmundur Steingrímsson. Mér er alveg sama í hvaða flokki hann er núna. Ef hann byði sig fram get ég vel trúað að ég mundi kjósa hann. Síðast kaus ég Píratana og ekki held ég að hann sé á leiðinni þangað.

IMG 6825Einhver mynd


Bloggfærslur 17. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband