2839 - Grindamígur og stakketpisser

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Moggans lætur ekki deigan síga.

Er nú ekki kominn tími til að þingmenn og ráðherrar horfist í augu við sjálfa sig og viðurkenni þau mistök sín að hafa ekki brugðizt við ákvörðunum Kjararáðs sumarið og haustið 2016 með því að afnema þær með lögum eins og tvö fordæmi voru fyrir? 

Þessa kveðju fengu alþingismenn frá honum alveg nýlega. Mér er ekki grunlaust um að hann og reyndar margir fleiri hafi ætlast til að Alþingi (með stórum staf í tilefni dagsins) brygðist við með öðrum hætti en þeim sem Katrín forsætisráðherra gumar sem mest af.

Og svo furðar þetta vesalings lið sig á því að virðingin minnki!!!!!  Það er hreint út sagt furðulegt að hún skuli ekki vera í algjöru núlli.

Einn af kostunum við að vera orðinn svo gamall, að einu tekjurnar sem maður hefur er það sem manni er skammtað af lífeyrissjóðum og öðrum opinberum aðilum, er sá að það er afar fljótlegt og auðvelt að gera skattframtalið. Nú er ég semsagt búinn að því og samþykkti allt sem þar var haldið fram af ríkisskattstjóra. Það er hampaminnst. Ekki þýðir að gera alltaf ráð fyrir að verið sé að svindla á manni. Þetta tók fljótt af og var alveg þrautalaust. Man að það var talsverður höfuðverkur hérna áður fyrr. Annars eru kostirnir fáir. Við að vera gamall altsvo. Meira að segja það að geta sofið út alla daga verður hversdagslegt með tímanum.

Kannski ég haldi bara áfram með sýslumannssögurnar mínar: Einhverntíma var sýslumaður á Húsavík. Kannski hét hann Júlíus Hafsteen. Í mínu minni var hann jafnframt kaupfélagsstjóri. Í kringum kaupfélagið var grindverk. Nauðsynlegt er að geta þessa útaf sögunni þó ekki tíðkist slík ósköp nú orðið. Bændur úr nágrenninu áttu það til að staupa sig svolítið þegar farið var í kaupstað. Bóndi einn sem sýslumaður kannaðist við þurfti að létta á sér uppvið grindverkið. Þá varð sýslumanni að orði:

„Jón grindamígur, bóka það.“

Nú líður og bíður unz bóndi þessi fær bréf frá kaupfélaginu. Um tilefnið veit ég ekki, en sendibréf voru sjaldgæf í þann tíð. Untanáskriftin var eftirfarandi:

Jón bóndi og grindamígur Jónsson
Efri-Brunná
Skefilsstaðahreppi

Bæjarnafnið og hreppurinn eru mín hugarsmíð og passar áreiðanlega ekki. Bóndi var að sjálfsögðu ekki par hrifinn af þessu uppnefni og óð inná skrifstofu kaupfélagsins öskureiður þegar hann átti næst erindi í kaupstaðinn.

Kaupfélagsstjóri og bóndi töluðu lengi saman inni á skrifstofu þess fyrrnefnda og þegar þeir komu þaðan út var bóndi mun hressari í bragði.

Þegar skrifari spurði hvort hann ætti að breyta þessu í bókum félagsins svaraði stjórinn:

„Já, okkur kom saman um að í stað orðsins grindamígur kæmi orðið stakketpisser.“

IMG 7009Einhver mynd.


Bloggfærslur 10. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband