2828 - Ný stjórnarskrá eða ekki

Stundum getur kjöftugum ratast satt orð á munn. Ég held t.d. að það séu ekki nema hörðustu Sjálfstæðismönnum, sem dettur andartak í hug að það sem Gunnar Bragi sagði í fylliríinu margfræga á Klausturbarnum um sendiherramálin sé ekki bæði satt og rétt. Auðvitað vita allir sem vilja vita að sendiherraembætti ganga kaupum og sölum milli flokka. „Ef þú gerir þetta fyrir mig núna, skal ég svo sannarlega muna eftir þér næst þegar ég hef yfir slíku embætti að ráða.“ Hingað til hafa landsmenn litið svo á að spilling af þessu tagi væri meinlaus. En vitanlega er hún það ekki þó hún sé kannski skárri en mörg önnur spilling sem þrífst meðal stjórnenda þessa lands og allir vita um. Mörg önnur ríki úthluta einmitt slíkum embættum sem einskonar verðlaunum, ef sæmilega hæf skyldmenni finnast ekki. Að sjálfsögðu átti Gunnar Bragi að þegja yfir þessu. Fyrst hann kjaftaði frá, fær hann þetta líklega ekki. Ég bókstaflega nenni ekki að fjölyrða meira um þetta.

Auk þess að hafa áhuga á stjórnmálum almennt hef ég sérstakan áhuga á stjórnarskrármálum og Alþingisáhugi minn takmarkast oftast við hálftíma hálfvitanna svokallaðan. Kannski vita ekki allir hvað ég á víð þegar ég tala um hálftíma hálfvitanna. Þar er um að ræða fyrstu 30 mínútur hvers dags á almennum þingfundum sem sjónvarpað er.

Stjórnarskrármálin standa þannig núna að ég held að nauðsynlegt sé að koma sem fyrst að ákveðnum breytingum. Sæmileg sátt virðist vera um þessar breytingar að öðru leyti en því að eins og vanalega vill Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur alls engu breyta. Einstakir þingmenn kunna í hjarta sínu að vera hlynntir ýmsum breytingum en flokkurinn sem slíkur er alfarið á móti öllu þvíumlíku. Í stjórnarsáttmálanum er samt sem áður talað um heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Óvíst er þó með öllu að Sjálfstæðisflokkurinn viljí í raun taka þátt í slíku.

Vissulega er þeim alltaf að fjölga sem vilja láta ljós sitt skína með skrifum sínum eða einhverju öðru. Nú um stundir ber mest á þeim á fésbókinni og ekki græt ég það. Hér á Moggablogginu er á margan hátt gott að vera. Engin eru vandræðin með birtinguna og það er svo sannarlega mikils um vert. Sennilega nýt ég þess að hafa bloggað hér æði lengi. Einhverjir stunda það greinilega líka að lesa bloggin. Annars væri maður sennilega ekki að þessu. Útaf fyrir sig er alveg frábært að þurfa ekki að hafa neitt fyrir því að láta þetta virka. Er það ekki annars svo? Meðan ég held áfram að fá einstaka komment held ég áfram að halda það. Þeir sem ánetjast fésbókinni finnst kannski að blogg sé gamaldags tjáningarmáti. Svo er ekki og satt að segja hentar hann mönnum eins og mér miklu betur en fésbókarræfillinn, sem alltaf er að breytast og verður sífellt flóknari og flóknari.

Í gamla daga var rusl bara rusl. Svo er ekki lengur. Nú þarf að sortera þetta allt saman eftir kúnstarinnar reglum og ekki finnst mér það neitt verra. Samt hefur alls ekki gengið vel að mennta almenning í sorpflokkunarmálum. Þar kemur til bæði það að erfitt er að kenna gömlum hundi (eins og mér) að sitja og einnig er á það að líta að samræming í þessu efni hefur verið afar stopul og áhuginn ekki mikill. Svo hefur alls ekki verið ljóst hver ætti að sjá um þessa fullorðnismenntun.

IMG 7112Einhver mynd.


Bloggfærslur 19. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband