2756 - Verslunarmannahelgin

Vissulega eru áhrif hinna hefðbundu fjölmiðla að minnka. Fésbókin og aðrir félagslegir miðlar eru að koma í staðinn. Meistari hinna félagslegu miðla er sjálfur Donald Trump. Tvitterfærslur hans eru fjölmiðill útaf fyrir sig. Allt þykist hann vita. Veit ýmislegt, en lýgur líka mikið. Áhrif hinna hefðbundnu miðla eru lítil orðin. Voru mikil áður fyrr. Sennilega er heimurinn mikið að breytast einmitt núna. Sá heimur sem blasti við okkur, sem erum orðin óttalegir gamlingjar núna, stuttu eftir síðustu heimsstyrjöld, er allt annar en sá sem blasir við ungmennum nútímans.

Á margan hátt má segja að tæknin hafi tekið völdin. Ekki ætla ég mér þá dul að telja neitt upp í því sambandi. Hver og einn getur gert það fyrir sig. A.m.k. þeir sem eldri eru. Stjórnmálalega eru innanríkismál að verða lítilvægari. Fólk nútildags lítur meira á heiminn sem eina heild. Þar af leiðandi er flóttamannmál og hnatthlýnun mál málanna í dag. Þeir sem íhaldssamastir eru núna búa sér gjarnan til strámann úr öllu því versta sem þeir geta hugsað sér og ráðast síðan á þann strámann. Vinstra sinnað fólk þarf ekki endilega að gera ráð fyrir því að allir flóttamenn séu yndislegir og hugsi bara fallegar hugsanir. Að breyttu breytanda er heldur ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir hægri menn séu eins.

Safna ekki tölulegum upplýsingum úr daglegri umræðu eins og mér virðist að sumir geri. Þetta veldur því að ég get ekki á árangursríkan hátt tekið eins mikinn þátt í pólitískri umræðu einsog ég stundum vildi. Auðvitað finnst mér og þykir ýmislegt vera á þennan eða hinn veginn og get ekki á nokkurn hátt gert að því. Stundum væri gott að geta stutt álit sitt með tölum og ef mér tekst að orða spurningar mínar eins og Gúgla þykir hæfilegt og ég nenni að fara þangað þá geri ég það stöku sinnum. Hinn möguleikinn er að orða það sem maður vill segja einhvern vegin öðruvísi. Ræðumaður er ég enginn og hef mesta reynslu núorðið í því að blogga. Meira ástfóstri hef ég greinilega tekið við Moggabloggið en fésbókina. Ekki er heldur að sjá að ég meti Trump Bandaríkjaforseta mikils. Einkum þykir mér sundrungartal hans og fjölmiðlaandúð vera of mikil. Viðurkenni samt að hann hefur gert ýmislegt vel og breytt forsetaembættinu á margan hátt. Kannski tekst honum að koma í veg fyrir að repúblikanar tapi yfirburðum sínum í þinginu í kosningunum í haust, þó er það allsekki víst. Í öldungadeildinni er t.d. ekki kosið um alla þingmennina.

Þegar ég blogga ekki geta lesendur mínir orðið ansi fáir. Jafnvel innan við tuginn á dag. Það er að vonum. Ef ég aftur á móti set upp blogg að morgni dags er ég hálfóánægður ef ég fæ ekki a.m.k. svona 100 lesendur eða svo þann daginn. Þeir fara stundum allt uppí 4-500. Áður fyrr fékk ég jafnvel 30 eða svo þó ég bloggaði ekki neitt. Þetta túlka ég þannig að lesendur mínir, sem ekki eru neitt óþægilega margir, séu í vaxandi mæli farnir að láta tölvuna minna sig á hvort ég hafi bloggað eða ekki. Annars virðist mér að fyrirsögnin ráði kannski talsverðu um fjöldann. Minnir að ég hafi bloggað um það fyrr. Kannski koma margir frá blogggáttinni.

Hugsanlega er athugasemdunum hjá mér eitthvað að fjölga. Steini Briem er a.m.k. farinn að senda mér vísur aftur. Einn er sá sem ég man eftir að hefur eflaust bloggað oftar og lengur en ég og nýtur greinilega mikilla vinsælda sem Moggabloggari. Það er Jens Guð. Reyndar er ég alveg að gleyma Ómari Ragnarssyni, sem stundum bloggar oft á dag. Bloggin hans Páls Vilhjálmssonar les ég stundum líka. Á margan hátt var það Jónas heitinn Kristjánsson sem kenndi mér að blogga og reyndar fleiri. Minnast má á Hörpu Hreinsdóttir og Nönnu Rögnvaldar í því sambandi.

Nú stendur Verslunarmannhelgin sem hæst. Fyrir utan hina næstum árvissu rigningu sem þjóðhátíðargestir fá virðist Skaftárhlaup fylgja með í pakkanum núna. Vonandi verða slysin á þjóðvegum landsins ekki mörg að þessu sinni. Annars er ekki hægt að gera ráð fyrir að verslunarmannhelgin sé upphaf og endir alls. Á sumum fjölmiðlum er samt ekki annað að sjá eða heyra en svo sé álitið.

IMG 7894Einhver mynd.


Bloggfærslur 6. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband