2727 - Trumpleysi er allra meina bót

Ég er búinn að vera í burtu alla helgina. Samt er ég alls ekki hættur að blogga. Trump-sýkin er þó örlítið að rjátlast af mér. Um margt annað og áhugaverðara er hægt að skrifa.

Merkilegasta heimspekilega spurningin finnst mér vera: Er fólk fífl? Er virkilega hægt að vefja fjöldanum um fingur sér með málæði og því einu að vera öðruvísi en aðrir? Trump virðist vera að takast þetta í bandaríkjunum.

Jæja, ekki gat ég skrifað langt mál án þess að minnast á Trump. Heimspekingur er ég ekki. Kannski er ekki mikið að marka mig. Get samt ekki að því gert að pólitískt hugsa ég svona. Hugsanlegt er að MESTA fíflið sé ég sjálfur. Þetta minnir mig á meirafíflskenninguna sem stundum virðist vera allsráðandi í viðskiptum. Kannski var HRUNIÐ sjálft henni að kenna. En förum ekki lengra út í þá sálma.

Lesendum mínum á Moggablogginu virðist vera að fækka aftur og er það vel. Selebrity vil ég síst af öllu verða. Látum vera þó einhverjir lesi þetta bull í mér. Um leið og þeir verða of margir fer mér að líða eins og einhverju selebrity og það er slæmt. Alls ekki vil ég samt læra betur á fésbókina eða snjallsímann minn, því mér finnst þessi tvö fyrirbrigði á margan hátt vera einskonar draumur andskotans.

Moggabloggið hentar mér ágætlega. Ekki síst vegna íhaldsstimpilsins sem á því er. Svo er dálitið umhendis að svara þessum ósköpum og fáir gera það. Athugasemdir við það sem ég skrifa á bloggið þurfa helst að vera gerðar þar. Annars getur dregist von úr viti að ég svari þeim. Samt auglýsi ég alltaf á fésbókarfjáranum og finnst ég verða að gera það.

Komum frá Akureyri í gær og þegar við fórum að nálgast Skagann fórum við framhjá Strákatalfæri, Luxustanga og Bognabresti. Sumir í bílnum kunnu að meta þennan orðaleik, en aðrir ekki. Sumir rithöfundar gera jafnvel of mikið af því að leika sér með tungumálið. T.d. er Hallgrímur Helgason slæmur með þetta. Ég er samt allsekki að líkja mér við hann. Í bloggi má allt. Jafnvel láta eins og vitleysingur.

Auðvelt er að sá hatri. Einangrunarviðleitni og sjálfselska kann að hafa í för með sér efnislegan ávinning um stundarsakir. Meðlíðunin með þeim sem ólíkir eru mun samt sigra á endanum.

Heyrði rétt áðan auglýsingu sem hljóðaði eitthvað á þennan veg: Pantaðu í matinn á Netinu og grípu það með þér á heimleiðinni.

Svonalagað skil ég bara allsekki. Er útilokað að vera á Netinu heima hjá sér? Eða er auglýsingin bara fyrir suma?

IMG 8114Einhver mynd.


Bloggfærslur 4. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband