2710 - Ásmundur Einar og Halldóra

Tilbúnir, skjóta, miða. Þetta segir Washington Post að séu einkunnarorð Trumps bandaríkjaforseta. Vel kann það að vera rétt. A.m.k. er ekki annað að sjá en hann leggi meira uppúr ásýnd hlutanna en innihaldi þeirra.

Fróðlegt var að horfa á opna fundinn sem Halldóra Mogensen, pírati stjórnaði. Í upphafi fannst mér hún skelegg og ákveðin, en í lokin bar líkamstjáning og rödd hennar vitni um eitthvað allt annað. Ráðherrann komst upp með að flækja málin með útúrsnúningum og málæði. Kannski forsætisráðherra snupri hann eitthvað, en líklegast er að þetta mál allt saman lognist útaf. Bragi verði kosinn í þessa SÞ-nefnd og allt verði eins og áður að því frátöldu að Bragi á varla afturkvæmt í Barnahúsið. Einu sinni hélt ég að SÞ þýddi Siggi Þráins, en nú veit ég að þarna er verið að tala um Sameinuðu Þjóðirnar.

Reiði kvenfólksins er sífellt að færast nær og nær. Fyrir nokkru tók hópur karlmanna sig til á Indlandi og nauðgaði stúlku þar. Gott ef þeir myrtu hana ekki síðan. Nú er svo komið að nokkrir karlmenn hafa gert spænskar konur og reyndar alla feminista öskureiða. Úlfahjörð ungra karlmanna er talin hafa raðnauðgað ungri konu í Pamplona þegar hið fræga nautahlaup fór þar fram fyrir tveimur árum. Kannski beinist sú reiði aðallega að dómstólum þar í landi. Hver veit nema það séu einkum karlmenn sem þeim stjórna. Katrín Jakobsdóttir þarf kannski að fara að sýna á næstunni að mark sé á henni takandi. Innistæða hennar hjá VG er ekki ótakmörkuð. Kona er hún og ætti að finnast nærri sér höggvið.

Sú saga gengur nú fjöllunum hærra í USA að Amazon sé að leita að stað til að fara með aðalstöðvar sínar til. Eins og margir vita eru núverandi aðalstöðvar þeirra í Seattle og þar vinna (eða vinna ekki) á þeirra vegum tæplega 50 þúsund manns. Í Seattle finnst þessu stórfyrirtæki vera orðið fullþröngt um sig og þar að auki er Microsoft í næsta nágrenni og borgaryfirvöld hugsanlega á móti þeim. Boston, New York og LA koma varla til greina (þar er svo dýrt að búa.) Vitanlega vilja allir fá þetta stórfyrirtæki í bakgarðinn hjá sér þó ekki væri nema vegna útsvars starfsmannanna.

Þegar ráðherrar fara að tala um starfshópa og verklagsreglur er réttast að stilla radarinn betur. Sennilega er verið að reyna að leyna einhverju. Jafnvel að tala þá í kaf sem hafa rétt fyrir sér og vinna tíma. Hugsanlega gæti viðkomandi ráðherra meint eitthvað allt annað en hann er að segja. Svo er auðvitað alltaf smámöguleiki á, að verið sé að segja satt og rétt frá.

Í morgun þegar ég vaknaði var allt grátt af snjó hérna, en nú er hann farinn og ekki að vita nema ég hætti mér út. Morgungangan og Fitbit-ið bíður mín.

IMG 8246Einhver mynd.


Bloggfærslur 1. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband