2707 - Frostlaust að kalla, en kaldara til fjalla

Eiginlega finnst mér mesti óþarfi að vera að kvarta yfir veðrinu, þó snjóað hafi smávegis í Akrafjallið í nótt. Sennilega eru þeir mun fleiri í veröldinni sem þurfa að búa við of mikinn hita en kulda í veðrinu. Svo má alltaf klæða af sér kulda, en líklega er það meira vandamál með hitann. Læt ég svo útrætt um veðrið að sinni. Mest vegna þess að ég veit lítið um það.

Pólitíkin er við það að verða allsráðandi. Enda er farið að styttast í bæjarstjórnarkosningar. Hér á Akranesi fer samt ekki mikið fyrir þessari óáran. Þó held ég að Sjálfstæðismönnum sé ekki rótt. Um pólitíkina veit ég líka lítið þó ég fjölyrði oft um hana. Það er líka auðveldara en um veðrið. Hvað ætti ég svosem að skrifa um þá.

Vinsælasta varaefnið er vafalaust Trump. Ekki bregst hann. Man samt ekki hvað var hans síðasta afreksverk. Eins og Sigmundur okkar er hann dálítið hneigður fyrir heimsmet. Áreiðanlega verða sett þar met af einhverju tagi þegar hann hittir fyrir einræðisherrann í Norður-Kóreu. Hvort þau met verða öllum til góðs eða ekki veit ég að sjálfsögðu ekkert um.

Nú er ég búinn að skrifa þrjár klásúlur og byrjaður á þeirri fjórðu án þess að segja nokkuð af viti. Kannski ég haldi því bara áfram. Hvað vitleysinginn Trump snertir þá held ég ekki að honum verði auðveldlega bolað frá völdum. Vel gæti verið fremur ástæða til að óttast mjög endurkjör hans árið 2020. Annars hygg ég að repúblikanar fari mjög halloka í komandi haustkosningum í Bandaríkjunum. Hugsanlega verður hægt að kenna Trump um það. Samt sem áður gæti hann vel sigrað í forsetakosningunum tveimur árum seinna. Ekki get ég leynt því að mér finnst kosningar þeim mun merkilegri sem fleiri taka þátt í þeim. Hversvegna ætti ég svosem að hafa áhuga á því sem kallað er kosningar hér á ísa köldu landi. Við lúffum hvort eð er ævinlega fyrir þeim sem stærri og sterkari eru. Að Gulli skuli vera orðinn utanríkisráðherra segir það sem segja þarf.

Haukur Hilmarsson er annaðhvort lifandi eða dauður. Hvort heldur sem er þá er ekki óeðlilegt að fjölskylda hans og vinir ætlist til þess að allt sem hægt er sé gert til þess að komast að hinu sanna í málinu. Sömuleiðis er vel hægt að skilja að Gulli utanríkis- vilji helst að þetta mál hverfi einhvernvegin af hans borði. Ekki dugir að reyna að fleygja því eitthvert annað, því þarna á það greinilega heima. Hvort hann og aðrir í ráðuneytinu hafa gert nóg í þessu máli má eflaust deila lengi um.

Fitbit lætur ekki rigninguna rugla sig. Óveðurshringurinn reyndist vera 3,2 kílómetrar en ekki tæpir þrír eins og ég hafði haldið. Annars er Fitbit-inu kannski ekki treystandi, því með því að fara upp á fjórðu hæð bættust 300 metrar við mælinguna og er það dálítið ótrúlegt. Það var Bjarni sonur minn sem setti Fitbit-ið í símann og nú er ég önnum kafinn við að læra á það. Alveg er hún merkileg þessi ofurtækni öllsömul. Uppáhaldsbekkurinn minn virðist vera í 1,52 kílómetra fjarlægð og var hann það bæði í gær og í dag.

IMG 0010Einhver mynd.


Bloggfærslur 26. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband