2684 - Keith Foskett

Árásir Trumps bandaríkjaforseta á dómsmálaráðuneytið og alríkislögregluna bandarísku gætu komið sér illa fyrir hann, þó síðar verði. Látum vera þó honum sé illa við fjölmiðla og flóttamenn. Slík andstaða nýtur mikils fylgis í USA. Orðspor Bandaríkjanna í veröldinni yfirleitt hefur beðið talsverðan hnekki. Stefna hans í málefnum sem snerta USA sérstaklega, án þess að koma fylkjunum og bandaríska þinginu beinlínis við, hefur valdið þar mestu. Ef repúblikanaflokkurinn á þingi snýst gegn honum gæti verið fokið í flest skjól fyrir hann. Þannig verða þær kosningar til bandaríska þingsins sem fram fara í nóvember næstkomandi (fyrsta þriðjudag eftir fyrsta mánudag í þeim mánuði) eflaust nokkuð spennandi.

Það er háttur minn að vaða úr einu í annað í blogginu sem ég sendi öðru hvoru frá mér. Ég hef alls ekki í huga að hætta því. Þess vegna er það sem ég skrifa ekki meira að þessu sinni um bandarísk (af hverju ætli ég skrifi bandarískur ætíð með litlum staf, varla mundi ég skrifa Íslenskur með jafnlitlum staf – en þetta var útúrdúr) stjórnmál þó þau séu aftur orðin mitt helsta áhugamál.

Einu sinni var ég áskrifandi að tímaritinu „Time“ og þá var það sem ég fékk talsverðan áhuga á bandarískum stjórnmálum. Satt að segja eimir svolítið eftir af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér með því að pæla vikulega í gegnum þetta tímarit. Minnist þess að í því voru margar myndir og þegar ég henti því safni sem orðið var næstum mannhæðarhátt hneyksluðust sumir. Man t.d. eftir því að Finnur í Strympu gerði það – þegar hann tæmdi ruslatunnurnar hjá okkur á Vegamótum. En nú er ég búinn að vera andvaka all-lengi og dembi mér semsagt í dúninn – eða fiðrið.

Þegar við vorum á Gran Canary fyrir skemmstu eignaðist ég eiginlega nýjan uppáhaldsrithöfund. Sá heitir Keith Foskett og ég er næstum viss um að ég er eini aðdáandi hans hér í Íslandi. Þannig var að ég tók kyndilinn minn með mér í þessa ferð. Ekki nennti ég samt að tengja hann við Vi-Fi-ið sem ég hafði að sjálfsögðu frían og frjálsan aðgang að á því fína hóteli sem við dvöldum á. Hafði aðgang á þessari spjaldtölvu að a.m.k. nokkrum þúsundum bóka sem ég hafði valið úr hópi ókeypisbóka hjá Amazon-útgáfunni. Sýnishorn hafði ég einnig af fjöldamörgum sölubókum hjá þeim. Einnig gat ég hlustað á allmargar hljóðbækur í símanum mínum. Þannig er tæknin orðin í dag. Með því verða langar og leiðinlegar flugferðir þolanlegri.

Nú ég ætti semsagt að segja nánar frá þessum Foskett, en á kyndilinum mínum hafði ég þrjár bækur eftir hann.

Framhald í næsta bloggi. (Þetta var nokkuð góð hugmynd hjá mér.)

Sennilega hefur Ofurskálarleikurinn verið í nótt. Mér er eiginlega nokk sama hvernig hann hefur farið. Eflaust hefur annað liðið unnið. Jafntefli er eitur í beinum Bandaríkjamanna.

IMG 0342Einhver mynd.


Bloggfærslur 4. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband