2682 - Trump og Katrín

 

Yfirleitt hef ég treyst allvel upplýsingum þeim sem mbl.is veitir notendum sínum varðandi heimsóknir og þess háttar. Kannski verð ég að hætta því. Um daginn skrifað ég blogg þar sem mbl.is heldur fram að gestir hafi verið 414 en IP-tölur 120 þann daginn eða 30. janúar. Þetta finnst mér að geti ekki staðist. Oftast nær eru þessar tölur ákaflega líkar af eðlilegum ástæðum. Sennilega eru þetta bara einfaldlega mistök sem engin ástæða er til að álíta að endurtaki sig. Tölvur eiga samt ekki að gera mistök, svona yfirleitt, og kannski er eftirlitið með þeim í slakara lagi.

Trump bandaríkjaforseti hélt sína fyrstu stefnuræðu í fyrrinótt. Ekki er hægt að neita því að efnahagslega virðist flest ganga bandaríkjamönnum í haginn. Sumt af því er áreiðanlega Trump að þakka. Sömuleiðis er alls ekki hægt að neita því að Trump er með allra óvinsælustu forsetum bandaríkjanna utan þeirra bandaríkja sem hann stjórnar að miklu leyti. Að mínu áliti er hann ákaflega einangrunarsinnaður og á endanum gæti það komið sér mjög illa fyrir bandaríkjamenn. Kosningar til fulltrúadeildarinnar verða í haust í bandaríkjunum og þá kemur í ljós hvernig sambandi hans við republikanaflokkinn verður háttað á næstunni. Ekki á ég von á að neitt sem varði embætti Trumps komi útúr rannsókn Muellers á sambandinu við rússa. Flest bendir til að kosningarnar 2020 verði ákaflega spennandi. Fremur en hitt á ég von á að Trump leiti eftir endurkosningu.

Af því að sjónin er svolítið að daprast hjá mér les ég yfirleitt ekki (a.m.k. ekki vandlega) dagblöðin og Moggasnepilinn allsekki. Styrmir stormsveipur, sem áður var ritstjóri hjá þessum margnefnda snepli, segir frá því í bloggi sínu að Oddi h/f hafi sagt heilmörgum upp starfi hjá sér. Þetta gefur honum tilefni til að fjölyrða um stjórnvöld þau sem allt eru að eyðileggja. Ekki er ég neinn sérstakur stuðningsmaður þeirra en mér finnst að Katrín eigi alveg eftir að sanna sig. Að minnsta kosti er hún ekki nærri eins glaðhlakkaleg og vanalega. Kannski er hún hreinasta guðsgjöf núna á þessum síðustu og verstu tímum. Eru þeir síðustu ekki ævinlega þeir verstu líka?

Sigríður Andersen þarf áreiðanlega fyrr eða síðar að segja af sér sem ráðherra. Sennilega gerir hún það samt ekki fyrr en Bjarni Benediksson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir henni að gera það. Eiginlega er aðalspurningin sú af hverju hann er ekki búinn að því. Varla gerir hann ráð fyrir því að hún standi spillingarásakanirnar af sér. Auðvitað kann að vera að hann vilji að hún reyni það. Hanna Birna reyndi lengi en varð á endanum að játa sig sigraða. Þessi mál eru samt talsvert ólík. Lík samt að því leyti að stjórnarandstaðan virðist ætla sér að losna við Sigríði. Meðan hún hangir í embætti er engin von til þess að samstarf stjórnvalda og þings batni.

IMG 0348Einhver mynd.


Bloggfærslur 1. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband