2803 - Moggabloggið

Alltaf sé ég samstundis að ég hefði átt að tækla málin öðruvísi en ég gerði þegar ég setti upp síðasta blogg. Ekki þýðir þó að fást um það, því ég breyti aldrei uppsettum bloggum. Stundum laga ég augljós pennaglöp en aldrei meira. Stundum dettur mér eitthvað í hug sem mér finnst að ekki megi bíða og þá set ég það á fésbókarræfilinn. Alveg er ég hissa á rifrildinu og hinni heilögu sannfæringu sem þar er allsráðandi. Mér finnst eðlilegt að efast um allt.

Fésbókarfaraldurinn snýst samt um annað. Þar þykir sá mestur sem getur öskrað hæst. Með þessháttar öskri á ég við samansúrraða orðaleppa sem þykja því merkilegri sem þeir eru ógeðslegri. Kannski eru þeir fáir sem lesa þessi ósköp, en ég get ekki að mér gert. Mest eru þetta ómerkilegar pólitískar yfirlýsingar sem standast enga skoðun. Annars er ég svo mikill fésbókarandstæðingur að það er ekkert venjulegt og afskaplega varasamt að taka mark á þessu tuði mínu.

Sýnist að Moggabloggið sé að ganga í endurnýjun lífdaga. Ekki er aðsóknin þó svo mikil að vandræðum valdi. Pólitískt fimbulfamb er þar á undarhaldi sem betur fer. Sum vefrit gera samt útá slíkt. Vonandi fer þeim fækkandi sem svoleiðis nokkuð lesa. Myndir virðast vera aðall unga fólksins í dag. Helst þurfa þær myndir að hreyfast. Talandi hausar held ég að verði samt seint vinsælir.

Svo gamaldags er ég að við liggur að ég hafi verki með því. Eiginlega er ég alveg fastur í gamla tímanum. Bíð bara eftir því að Dabbi frændi fari að hætta. Þá ætti innleggjendum á þetta undarlega bloggsvæði, sem Moggabloggið óneitanlega er, að fjölga allmikið per samstundis. Hver veit nema Davíð og Trump hætti fljótlega báðir tveir. Best að spá því bara fyrir 2019. Það verður aldrei verra en vitlaust. Gallinn við þá sem verða vinsælir er að þeim hættir til að ofmetnast. Þá verða þeir leiðinlegir.

Alveg er ég hissa á því að enn skuli vera til fólk sem heldur í alvöru að óhætt sé að trúa nettengdum tryllitækjum einsog tölvum og þessháttar fyrir leyndarmálum. Ef eitthvað er sett á slík tæki er alveg hundrað prósent öruggt að ef einhvern langar nógu mikið til að nálgast þær upplýsingar þá getur hann það. Spurningin er bara hve langan tíma það taki. Einu sinni var sagt að sá sem ekki hefði lent í tölvukrassi, ætti það bara eftir. Kannski hafa tölvuskýin tekið fyrir alvarleika slíks. Tölvuvírusar herja þó alltaf öðru hvoru og valda stundum skaða.

Nú fer jólastressinu blessunarsamlega að ljúka. Eftir er samt að opna gjafirnar og sumir fara og skila því sem þeir fengu og dugar jafnvel tíminn milli hátiða varla til þess. Svo tekur hversdagurinn við. Það þarf bara að þreyja Þorrann og Góuna, svo fer vorið verulega að nálgast. Nú er að mestu leyti búið að skítnýta helstu hneykslunarefnin svo rétt að vinda sér að því að finna ný. Klaustur- og Braggamálin þvælast þó enn fyrir og ekki er loku fyrir það skotið að eitthvað hafist uppúr því að lokum. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki.

Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá. Þó finnst mér ég ekki vera svo gamall. Helst er það göngulagið sem upp um mig kemur. Eða það held ég að minnsta kosti. Stóri munurinn sem ég sé á okkur Íslendingum fyrri tíma og núna eru lífskjörin. Munurinn felst kannski einkum í því að kröfurnar eru svo miklu meiri núorðið. Samanburð á þessu má víða finna, en hann er einskis virði, því allt er breytt. T.d. var sú venja ríkjandi víða áður fyrr að drekka sig fullan á Þorláksmessu og sprengja kínverja. Nú er skatan tekin við. Mér finnst samt brennivínið skárra.

Gleðileg jól öllsömul og gott og farsælt komandi ár.

IMG 7412Einhver mynd.


Bloggfærslur 24. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband