2799 - Reddast þetta nokkuð?

Eigi veit eg þat svo gjörla, en hitt veit eg að stjórnmálin snúast fyrst og fremst um mikil eða lítil afskipti stjórnvalda af hinum ýmsu málum. Það sem fyrst og fremst þyrfti að reddast núna eru loftslagsmálin og hnatthlýnunin. Einn helsti forsvarsmaður einkaframtaksins í heiminum, sjálfur yfir-Tromparinn eini og sanni hefur afneitað öllum hallelújakórum og vísindasamfélaginu að mestu leyti, sem segja að allt sé að fara til fjandans ef ekki sé það samþykkt að mannkynið alltsaman sé með athæfi sínu að ganga of nærri náttúrunni sjálfri. Þó ekki sé sú svartsýnisspá samþykkt af öllum nema Trump er því ekki að neita að miklu fylgi á sú spá að fagna. Best er auðvitað að reyna eftir mætti að leiða slíka spurningu hjá sér, þó sennilega sé ekki hægt að gera það endalaust. Næst á eftir lífsgátunni sjálfri er þetta eflaust sú allra mikilvægasta.

Ekki hef ég lagt það á mig ennþá að horfa á Flateyjargátuna í sjónvarpinu. Þó las ég bókina á sínum tíma. Held að sjónvarpsútgáfan fjalli um allt aðra hluti. Nenni samt ekki að gá að því. Er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að horfa á Ófærð II sem mér skilst að verði sýnd eftir áramótin. Yfirleitt er ég ekki hrifinn af sjónvarpsefni. Það er helst að ég horfi þar á fréttir. Svo fylgist ég svolítið með íþróttum og læt helst ekki Kiljuna framhjá mér fara. Kvikmyndir eru næstum á bannlista hjá mér eins og amerískir sakamálaþættir, sem ég forðast eins og pestina. Íslenskar kvikmyndir koma þó alveg til greina.

Kannski les ég allt of mikið á Internetinu. Þó hef ég talsverða andúð á fésbókinni. Fer samt þangað flesta daga, en yfirleitt ekki með símanum. Oft er Netið eina ráðið til að fylgjast almennilega með nýjustu kjaftasögunum. Sumar eru dagsannar en aðrar haugalygi. Hvernig á að þekkja það í sundur. Sá sem finnur auðvelda og handhæga leið til slíks í einkaframtakslandi verður eflaust forríkur.

Einelti og nauðgunartilburðir eru fordæmdir í mannlegu samfélagi og ekki dettur mér í hug að mæla slíku á nokkurn hátt bót. Slíkir tilburðir eru samt ótrúlega algengir í dýraríkinu. Sjálfur hef ég oft fylgst með slíku á meðal fugla og þó dýr éti hvort annað og ekki síst maðurinn a.m.k. önnur dýr þá virðast flestir horfa í gegnum fingur sér með það, sé það gert á vissan og viðurkenndan hátt. Þvíumlíkar venjur geta þó fyrirvaralaust breyst eins og sannast hefur á hvölunum. Einu sinni voru þeir réttdræpir hvar sem er og hvernig sem er, en nú er öldin önnur.

Stundum, einkum þó í auglýsingum og þáttum allskonar, er því haldið fram að bækur séu upphaf og endir alls góðs. Þvílík endemis vitleysa. Svo er alls ekki lengur. Að vísu verður að viðurkenna að mikið af þekkingu og afþreyingu þeirri, sem safnast hefur í kringum mannkynið á umliðnum öldum, er saman komið í bókum. Gömlum bókum vel að merkja. Lestur er að vísu ennþá nauðsynlegur og mikilvægur í allri þekkingarleit. Bækur, í hefðbundnum skilningi, eru þó óðum að missa sjarma sinn og víst er að mikið af þeirri þekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum, mun aldrei á bækur rata. Vel getur þó verið að með því að láta safnheitið „bækur“ ná yfir víðtækara svið en verið hefur megi e.t.v lengja líftíma þeirra nokkuð og svo hefur bókaútgáfa hvers konar sífellt orðið ódýrari og einfaldari m.a. með því að láta tölvur sjá um sem mest af þeirri vinnu sem til þarf.

IMG 7447Einhver mynd.


Bloggfærslur 12. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband