2776 - Að leggja skóna á hilluna

„Sæl vertu Sigurjóna“, sagði Halldór Blöndal. Hann var sennilega ráðherra þá og ég man eftir þessari setningu úr útvarpinu. Hann var sennilega að vígja eitthvað í sambandi við símann og ætlaði að hringja í Kristján Jónsson óperusöngvara sem þá var í Rússlandi. Gallinn var bara sá að það var ekki Sigurjóna sem svaraði í símann, heldur einhver sem talaði bara rússnesku.

Þessi skóhilla hlýtur að fara að gefa sig hvað úr hverju. Einhver knattspyrnumaður var um daginn að setja skóna sína þar. Eiginlega finnst mér það ekkert fréttnæmt, en ég er nú svo takmarkaður að ég skil ekki æðri fjölmiðlavísindi. En samkvæmt blaðafréttum er hann alls ekki sá fyrsti sem setur skóna sína á þessa hillu.

„Vikan“ er víst orðin áttræð. Þegar ég var á Bifröst var ég áskrifandi að Vikunni og hún kom í hverri viku. Í auglýsingateikningunni hjá Herði Haralds gerði ég auglýsingu fyrir Vikuna. Man vel að stafirnir voru rauðir. Seinna meir, um það leyti sem Kúbu-deilan stóð sem hæst skrifaði ég grein um Gísla Sigurbjörnsson í Ási, sem einskonar svar við grein sem birst hafði um hann í Vikunni. Vikan vildi ekki birta hana, en þegar ég leitaði til Morgunblaðsins var það birt sem Vettvangur dagsins. Gæti skrifað meira um þetta því það er mér nokkuð minnisstætt, en geri það ekki núna a.m.k.

Eru sjónvarpstæki bílar nútímans. Í heilsíðuauglýsingu er 50 þúsund króna afslætti lofað á einu sjónvarpstæki. Hver hefur þá álagningin verið og hver borgar auglýsinguna. Einu sinni gat maður leikandi létt fengið heilt sjónvarp fyrir þessa upphæð. Á svipuðum tíma og bílaverð virðist fara lækkandi fer sjónvarpsverð hækkandi. Ekki er víst að sjónvarpstæki með aðgangi að 1000 sjónvarpsrásum og ýmsu fleiru sé nokkuð meira menningar- og menntunartæki en ódýru sjónvörpin voru. Þau áttu að vera alveg stórkostleg að því leyti, en voru það ekki.

Hrunið mikla á víst 10 ára afmæli um þessar mundir. Flestir eiga einhverjar minningar sem tengjast því og ég þar á meðal. Finn samt enga löngun hjá mér til að fjölyrða um það. Kannski er að styttast í næsta hrun og t.d. gæti það hafist með því að flugfélög færu unnvörpum á hausinn. Fjölmiðlar hafa verið uppteknir við það að spá falli Wow-air, en svo fór Primera á hausinn. Okkur hjónunum hefur oft verið strítt á því að við höfum valdið hruninu. Minnir að við höfum, af illri nauðsyn keypt flatskjár-sjónvarp fyrir hrun sem núna er að verða úrelt vegna þess að það er svo lítið. Haustið 2008 að mig minnir fórum við með öðru starfsfólki frá Aðföngum til Kaupmannahafnar til að taka þátt í árshátíð. Þessi sótt í að halda árshátíðir erlendis hefur að mínum dómi stulað fremur en flatskjárkaup að hruninu. Annars er ekki grín gerandi að þessum atburðum og nú 10 árum seinna eru enn margir að glíma við afleiðingar þess.

Traust almennings á Alþingi og stjórnvöldum öllum er ákaflega lítið. Ekkert virðist vera gert til að auka það. Vissulega er það ekki einfalt mál, en vel mætti byrja á því að ríkisstjórnin, Alþingi og reyndar stjórnvöld öllvönduðu sig svolítið meir. Sérstaklega á þetta við um ráðuneytin. Þar virðist fólk ekki hafa vit á neinum sköpuðum hlut. Auðvitað er ekki allt satt og rétt, sem sagt er á fésbókinni og reyndar liggja flestir fjölmiðlar á því lúalagi að reyna sífellt að gera pólitískan hlut sinna manna sem stærstan og mestan.

Untitled Scanned 60Einhver mynd.


Bloggfærslur 5. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband