2590 - Comey og Trump

Sennilega eru menn alveg búnir að sætta sig við að túristunum hætti að fjölga fyrr eða síðar. Ég er svosem ekki að spá því að ferðamenn hætti að koma hingað og öll hótelin standi meir og minna auð. Sumir aðrir gera það kannski, en ég hef þá trú að hingað haldi túristar áfram að koma. Þeim getur hinsvegar ekki haldið áfram að fjölga jafn ævintýralega og undanfarið.

Held að búið sé að ákveða hvað eigi að taka við af ferðamönnunum. Áreiðanlega verður það laxeldið, fyrst skattaparadísin gekk ekki upp. Gallinn er bara sá að það er búið að prófa þetta. Það gekk alls ekki vel. Líklega er laxeldið ennþá óvissara en ferðamannabísnessinn. Mér líst satt að segja alls ekki á þessar skýjaborgir sem verið er að reyna að troða uppá okkur um þessar mundir.

Helga Vala Helgadóttir minnist á það í bakþönkum Fréttablaðsins að heyrnardaufir séu það margir hér á landi að fyllsta ástæða sé til þess að texta innlenda dagskrá. Þarna er ég með öllu sammála henni. Mér finnst að verið sé að nauðga þessum minnihlutahóp sem sennilega er ekki neinn minnihlutahópur.

Fréttablaðið virðist álíta að það sé mikil frétt að búið sé að selja Arion banka. Að mínu viti er alltaf verið að selja þessa bankaræfla eða a.m.k. að undirbúa sölu á þeim. Þeir virðast ekki geta horfið úr fréttum. Sennilega eru upphæðirnar sem nefndar eru svo háar að vesalings fréttamennirnir skjálfa í hnjáliðunum.

Það sem mér finnst merkilegast í fréttum núna (mánudagsmorgun) er það að Bandaríska þingnefndin sem sér um njósnir og þess háttar ætlað að halda opinn fund í dag með Comey forstjóra FBI o.fl. og þar verður kannski rætt um flest sem ekki er algjört hernaðarleyndarmál. Ef formaður nefndarinnar, sem er Repúblikani og varaformaður hennar, sem er Demókrati verða sammála um eitthvað er eftir því tekið. En það er svosem ekki mikið að marka mig, því ég sé fátt annað þessa dagana en Bandaríkin og Tromparann.

Nú er ég farinn að blogga svo oft að ég verð sennilega að fara með þetta á fésbókina hvað líður. Alltaf reyni ég samt að hafa þetta sem allra styst. Eiginlega má ekki tala (eða skrifa) lengi um það sama, því „attention spanið“ hjá flestum er svo stutt.

IMG 1752Einhver mynd.


Bloggfærslur 20. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband