2584 - Guðni forseti

Einu sinni þurfti ég að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur í náttmyrkri og rigningu. Mætti á leiðinni miklum fjölda flutningabíla og verð að segja að annarri eins lífsreynslu hef ég aldrei lent í. Þó átti svo að heita að vegurinn alla leiðina væri með bundnu slitlagi. En að sumarlagi í þurru veðri og með hæfilegum stoppum er þetta ekki mikið mál. Eða var ekki. Kannski er umferðin orðin svo gríðarmikil núna að þetta sé ekkert gaman lengur.

Mér sýnist að Trump bandaríkjaforseti ætli að dansa á þeirri línu að andstæðingum hans sýnist jafnan jaðra við að hægt sé að ákæra hann. (e-impeach). Annars er ég um það bil að fá leið á Trump. Hann er á flestan hátt svo fjarlægur okkur í hugsun sem mest getur verið. Finnst að ríkisstjórninni hérlendis (Bjarna-bófunum) væri nær að taka skandinavísku ríkin sér til fyrirmyndar en Bandaríkin. Norræna velferðin er mun skárri en sú bandaríska.

Mér finnst Guðni forseti þurfi svolítið að vara sig á að gera ekki embættið of pólitískt. Auðvitað var það bara brandari, frekar ómerkilegur þó, að hann vildi láta banna að hafa ananas ofan á pizzum. Hinsvegar er það varla brandari hjá honum að vilja að Íslendingar almennt eða a.m.k. ríkisstjórnin og jafnvel alþingi eigi að biðja Geir Haarde afsökunar á að hann skuli hafa verið dreginn fyrir landsdóm og dæmdur. Auðvitað var það spurning hvort rétt hafi verið að dæma hann einan sekan en ekki aðra þá sem draga átti fyrir landsdóm. Einnig voru þau ákvæði sem hann var dæmdur eftir hugsanlega úrelt orðin og vafasamt að dæma hann eftir þeim. Nei, mér finnst að Guðni eigi að láta það ógert að skipa sér í pólitíska sveit. Ananasbann hans var kannski brandari en ekki gátu allir útlendingar vitað það.

Held að sá landsdómur sem nú er talað um sé allt annars eðlis en sá sem Geir var dæmdur eftir. Líklega þarf þó að kalla hann eitthvað annað eða fella ákvæðin um hann niður. Minnir að þau séu í stjórnarskránni og þá er talsvert verk að koma þeim í burtu.

Ekki er ég þeirrar skoðunar að ekki megi hrófla við samningi milli ríkisins og kirkjunnar. Held að hann fjalli um það að ríkið skuli áfram greiða prestum laun og fá í staðinn kirkjujarðir þær sem kirkjan telur sig hafa fengið til eignar við siðaskiptin. Þær voru margar fengnar með misjöfnum hætti. Held að Sr. Sigurður Árni Þórðarson hafi nýlega verið að skrifa um það mál og notað tækifærið til að hnýta í Pírata eins og mörgum finnst sjálfsagt. Ég hef kosið Píratana í tveimur undanfarandi kosningum og hef talsverðan skilning á afstöðu þeirra til ýmissa mála. Hnútukast Sigurðar hefur þar engin áhrif. Enginn vafi er á því í mínum huga að lög landsins geta í vissum tilvikum verið samningum æðri. Í samningum við kirkjuna verður auðvitað að gæta þess að taka ekki með annarri hendinni það sem afhent hefur verið með hinni. Þó er það svo að samninga má oft endurskoða í ljósi breyttra aðstæðna.

Allir eru dálítið eigingjarnir inn við beinið. Fara samt mismunandi vel með það. Enginn er með öllu laus við eigingirnina, en varast ber að láta hana stjórna lífi sínu of mikið. Gagnrýni fólks byggist oft, að hluta til a.m.k., á eigingirni. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við hana. Oft kemur hún manni til bjargar og á dauðastundinni er maðurinn alltaf einn.

IMG 1878Einhver mynd.


Bloggfærslur 13. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband